Skip to main content
1. júní 2015

Bæta líf blindra og sjónskertra með hátæknibúnaði

Vísindamenn við Háskóla Íslands eru í forystu um evrópskt rannsóknaverkefni sem miðar að því að þróa hátæknibúnað sem á að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt. Verkefnið fékk nýverið fjögurra milljóna evra styrk, jafnvirð nærri 600 milljóna króna, úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020.

Rannsóknaverkefnið ber heitið Sound of Vision og það mun standa yfir í þrjú ár. 

Verkefnisstjóri þess er Rúnar Unnþórsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Auk hans koma fulltrúar frá Sálfræðideild, þeir Árni Kristjánsson dósent og Ómar I. Jóhannesson nýdoktor, að verkefninu ásamt Blindrafélagi Íslands og verkfræðingum frá háskólum og stofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum. 

Hátæknibúnaðurinn sem verður hannaður og smíðaður er ætlaður þeim sem reiða sig á einhvers konar aðstoð til að fara um vegna sjónskerðingar, t.d. staf eða hund. Ætlunin er að búnaðurinn skanni nærliggjandi umhverfi í þrívídd og geti greint hluti í umhverfinu sem mestu máli skipta. Upplýsingarnar um þessa hluti í umhverfinu verða svo að þrívíddarlíkönum sem túlkuð verða yfir í hljóð og snertingu. Þetta mun gerast í rauntíma og fær hinn sjónskerti eða blindi upplýsingar um umhverfi sitt í gegnum bæði hljóð og snertingu. 

Með þessu vonast verkfræðingarnir, sem standa að verkefnin, til þess að auðvelda megi blindum og sjónskertum að ferðast um og sinna daglegum störfum og stuðla þannig að bættri velferð þessa hóps. 

Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar glíma hátt í 300 milljónir manna við sjónskerðingu af einhverju tagi og þar af teljast um 40 milljónir blindar. Því er ljóst að verkefni sem þetta getur bætt lífsskilyrði afar stórs hóps, en skortur hefur verið á tæknilausnum sem stuðlað geta að aukinni þátttöku blindra og sjónskertra í samfélaginu.

Á haustmánuðum 2015 er áætlað að frumgerðin verði tilbúin til prófana.  Að prófunum munu koma blindir og sjónskertir einstaklingar. Samhliða frumgerðasmíðinni og endurbótum verður unnið að gerð hermis til að þjálfa notendur búnaðarins í sýndarveruleika. Þjálfunin í herminum mun taka mið af færni notenda – þ.e. eftir því sem færni notenda eykst þá verður fleiri og flóknari hindrunum bætt við sýndarumhverfið. 

Frekari upplýsingar um verkefnið:

Vefsíða verkefnisins

Verkefnið á Twitter

Verkefnið á LinkedIn

Verkefnið á Facebook

Rúnar Unnþórsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, leiðir verkefnið sem miðar að því að þróa hátæknibúnað sem á að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt.
Ætlunin er að búnaðurinn skanni nærliggjandi umhverfi í þrívídd og geti greint hluti í umhverfinu sem mestu máli skipta.
Rúnar Unnþórsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, leiðir verkefnið sem miðar að því að þróa hátæknibúnað sem á að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt.
Ætlunin er að búnaðurinn skanni nærliggjandi umhverfi í þrívídd og geti greint hluti í umhverfinu sem mestu máli skipta.