Skip to main content
23. febrúar 2024

Ávarp rektors við við brautskráningu 23. febrúar 2024

Ávarp rektors við við brautskráningu 23. febrúar 2024 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrrverandi rektor, aðstoðarrektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, kandídatar, góðir gestir nær og fjær. 

Kæru kandídatar, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn. Prófskírteinið sem þið takið við hér á eftir er vitnisburður um metnað ykkar, viljastyrk og þrautseigju og er lykill að þeim ótal tækifærum og ævintýrum sem bíða ykkar á lífsleiðinni. Starf Háskóla Íslands er helgað því að tryggja að nám og prófgráður frá skólanum standist samanburð við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi. Til að svo megi verða höfum við einnig gert miklar kröfur til ykkar, kandídatar góðir. Í dag uppskerið þið árangur erfiðisins. Við erum öll stolt af þeim árangri sem þið hafið náð með dyggum stuðningi fjölskyldna ykkar og vina, en á námsárunum skapast jafnan dýrmæt tengsl sem fylgja ykkur út lífið. Framtíðin er ykkar og þið hafið fulla ástæðu til að líta vonglöð fram á veginn. 

Á grunni menntunar getið þið mætt erfiðleikum af yfirvegun og æðruleysi með hógværð og heiðarleika að leiðarljósi. Mikilvægi þekkingarleitarinnar birtist glöggt í COVID-19 heimsfaraldrinum sem setti mark sitt á nám ykkar hér við Háskóla Íslands. Hagnýtt gildi grunnrannsókna hefur ekki síður orðið okkur öllum ljóst í eldsumbrotunum á Reykjanesskaga að undanförnu. Þar hefur jarðvísindafólk okkar verið vakið og sofið við að rannsaka hreyfingar jarðskorpunnar og að upplýsa stjórnvöld og almenning um ólíkar sviðsmyndir. Vitaskuld er þungbært að glíma við erfiðleika sem ekki sér fyrir endann á. Það á sérstaklega við um íbúana á Reykanesi og ekki síst Grindvíkinga sem eru í óvissu um framtíð sína. Á þessari stundu er hugur okkar hjá öllu því fólki sem er að kljást við afleiðingar náttúruhamfara á Reykjanesi. 

Vísindarannsóknir hafa gert okkur kleift að draga úr margvíslegri óvissu og læra að lifa með henni. Á sama tíma hefur það aukið trúverðugleika vísindafólks okkar, og virðingu fyrir háskólamenntun almennt, hve óþreytandi það er að útskýra forsendur fræða sinna. Um leið vekur athygli hversu fúst vísindafólkið er að viðurkenna takmörk þekkingar sinnar. „Við einfaldlega vitum það ekki,“ er stundum eina svarið við spurningum fréttamanna. Þótt þekkingarleitinni ljúki eðli máls samkvæmt aldrei, eru rannsóknir á öllum sviðum náttúru, sögu, samfélags, heilbrigðis, menntunar og menningar grundvöllur velferðar okkar í nútíð og framtíð. 

Kæru hátíðargestir. Því miður fer því fjarri að heimsbyggðin líti almennt björtum augum til framtíðar nú um stundir. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna að stórir hópar fólks kvíða komandi tímum. Þessar niðurstöður eru vissulega til marks um aukna vitund um aðkallandi verkefni og áskoranir framtíðar. Og það er sannarlega full þörf á. En við höfum ekki að sama skapi verið nógu dugleg að halda á lofti þeim undraverða árangri sem náðst hefur á síðustu árum og áratugum á nánast öllum sviðum mannlífsins, svo sem í baráttunni við fátækt, hungur, ójöfnuð, sjúkdóma og umhverfisvá. Þeirri baráttu er fjarri því lokið. Hér innanlands blasir við markverður árangur í orkuskiptum og í löndum Evrópusambandsins hefur tekist að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á síðustu áratugum. Þá er græn orka að verða sífellt samkeppnishæfari valkostur. Dauðsföll vegna náttúruhamfara eru nú mun fátíðari en var fyrir einni öld. Ungbarnadauði hefur minnkað stórkostlega og lífslíkur og lífsgæði hafa aukist. Rannsóknir sýna að umburðarlyndi hefur aukist fyrir ólíkum skoðunum og því hvernig hvert og eitt okkar kýs að haga lífi sínu. En ekkert af þessu er sjálfgefið og við þurfum sífellt að standa vörð um þau réttindi sem okkur kunna að þykja sjálfsögð. Víða um heim býr fólk sem ekki getur tjáð hug sinn og skoðanir án þess að þurfa að eiga von á að mæta hrikalegum afleiðingum.

Það er raunhæfur möguleiki að þið, kandídatar góðir, getið orðið fyrsta kynslóðin til að lifa í nokkurn veginn sjálfbæru samfélagi – samfélagi sem hefur ábyrgð að leiðarljósi og lifir ekki á kostnað komandi kynslóða. En til að svo megi verða þurfum við áfram að halda vöku okkar og finna nýjar leiðir til að lifa í sátt við lífríkið og bæta lífsskilyrði allra jarðarbúa. Þetta er stærsta verkefni okkar allra og komandi kynslóða.

Í háskóla temjum við okkur skynsama, agaða og gagnrýna hugsun. Órjúfanlegur þáttur í því er að gera sér grein fyrir takmörkunum sínum, hvort heldur um ræðir okkur sjálf sem einstaklinga eða mannkynið allt. En að einblína á gallana og sjá ekki kostina og tækifærin er ávísun á vonleysi sem drepur niður alla sköpunargleði og spillir lífsgleðinni. Við skulum einnig hafa hugfast að áskoranir eru ekki föst og óbreytanleg stærð. Áskoranirnar stækka og minnka í hlutfalli við okkar eigin þekkingu og getu til að takast á við þær. Þegar við tökumst á við áskoranir er ekkert vopn sterkara en menntun sem í senn eflir og þroskar okkur sem einstaklinga og nýtist markvisst á fjölbreyttum starfsvettvangi í samvinnu okkar allra. 

Kandídatar góðir. Ítrekaðar mælingar á trausti til helstu stofnana samfélagsins staðfesta að þjóðin treystir Háskóla Íslands. En traust er aldrei sjálfgefið. Það tekur langan tíma að ávinna sér trúverðugleika og traust, en það getur glatast á augabragði. Hér skiptir mestu að Háskóli Íslands er viðurkenndur vettvangur frjálsrar þekkingarleitar og skoðanaskipta þar sem á endanum aðeins eitt telur: það sem sannara reynist. Í því felst að við erum fjarri því að vera alltaf sammála, en við viljum hlusta á ólík rök og sjónarmið sem skapa okkur, þegar upp er staðið, traust og trúverðugleika. Það er ómetanlegt hverju samfélagi að eiga slíkan vettvang og okkur ber skylda til að hlúa að sérstöðu háskólastarfsins.

Kæru kandídatar. Það er einlæg von mín að andi háskólaáranna muni fylgja ykkur alla tíð og að þið verðið, hvert á sínum vettvangi, hugrakkir og stoltir boðberar gagnrýnnar umræðu og sannleiksleitar. Ef þið fylgið þeirri hugsjón er ég þess fullviss að ykkur muni farnast vel í lífi og starfi. Í námi ykkar við Háskóla Íslands hafið þið lært að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum, virða ólíkar skoðanir og skilja mikilvægi fjölbreytileika mannlífsins. Minnumst þess að ef skoðun einhvers er andstæð okkar eigin, og veldur okkur angist eða reiði, kann það að vera vegna þess að okkur skorti rök fyrir eigin sannfæringu. Minnumst þess einnig að framúrskarandi vísindafólk og hugsuðir hafa í aldanna rás oftsinnis verið brennimerktir sem vondir og siðspilltir af þeirri ástæðu einni að þeir héldu fram nýjum og áður óþekktum rökum og skoðunum sem síðar áttu eftir að frelsa mannkyn úr margvíslegri ánauð. Sannleikurinn sigrar að lokum og slíkir hugsuðir hafa mótað háskóla- og lýðræðishefð Evrópu.

Háskólar eru meðal elstu stofnana sem fundnar hafa verið upp og enn eru við lýði. Fullyrða má að hugmyndin um alhliða háskóla – universitas – sé eitthvert merkasta framlag Evrópu til heimssamfélagsins. Farsæld þjóða hefur að miklu leyti ráðist af því hversu vel þeim hefur tekist að tileinka sér hugsjónir og grunngildi háskóla. Í nýlegri yfirlýsingu Samtaka evrópskra háskóla, EUA, er kallað eftir endurnýjuðum sáttmála fyrir Evrópu og evrópska háskóla. Þar er lögð áhersla á að æðri menntun og rannsóknir séu burðarás í allri nýsköpun og þróun og að frjáls og gagnrýnin hugsun sé grundvöllur lýðræðis, friðar og framfara í álfunni. Mikilvægt sé að grunnrannsóknir séu stundaðar á öllum fræðasviðum, lögð sé áhersla á þverfræðilegt samstarf, endurmenntun og fjölbreytileika nemenda og starfsfólks. Skapa þurfi háskólum fjárhagslegt sjálfstæði og trausta lagalega umgjörð til að þeir geti leikið áfram lykilhlutverk í að tryggja framtíð og farsæld í álfunni. Þá segir enn fremur í yfirlýsingu evrópsku háskólanna að miklu skipti að sú lagalega umgjörð sem háskólunum sé sett greiði fyrir tækifærum þeirra til samstarfs þvert á þjóðlönd í stað þess að takmarka, hefta og einangra. Loks eru stjórnvöld aðildalandanna, og Ísland er þeirra á meðal, hvött til að ná þeim markmiðum að veita a.m.k. þremur prósentum af vergri landsframleiðslu til rannsókna og nýsköpunar og a.m.k. tveimur prósentum til æðri menntunar. Hér geta íslensk stjórnvöld gert betur. Miklu skiptir að stefna stjórnvalda um háskólastigið, vegvísir okkar til farsællar framtíðar, sé mótuð til langs tíma í sátt við hagaðila. Grundvallarbreytingar á tilhögun háskólanáms hérlendis verða að vera vel kynntar og ræddar ítarlega áður en þeim er hrint í framkvæmd. 

Kæru kandídatar. Háskólahefðin byggist á traustum grunni fyrri kynslóða sem hafa skapað okkur frábær lífskjör, frjáls, friðsæl og réttlát samfélög, og tækifæri allra til þroska. En þessi síunga hefð er okkur líka hvatning til að taka þátt í að skapa eitthvað sem er margfalt stærra og öflugra en okkur gat dreymt um hverju og einu. Með því sýnum við í verki þakklæti okkar gagnvart fyrri kynslóðum sem lögðu grunninn fyrir okkur og við leggjum á sama hátt komandi kynslóðum lið með okkar eigin hugsunum og verkum. Þjóðskáldið Hannes Pétursson, heiðursdoktor við Háskóla Íslands, hvetur okkur til að loka „nú augum / eitt andartak“. 

„Hvílumst,“ segir skáldið:
… Hlustum ef við getum
á lífið – 
hina löngu hugsun.

Þannig styrkist sáttmáli kynslóðanna um að hver þeirra skili af sér betri jörð en hún tók í arf.

Kæru kandídatar, ég er sannfærður um að þau mögnuðu úrlausnarefni sem fram undan eru muni efla starfsorku ykkar og baráttugleði. Raunsæ bjartsýni er gott veganesti, ásamt auðmýkt, velvild og mildi. Ég hvet ykkur til að setja ykkur stöðugt ný markmið og finna nýjar leiðir til að láta gott af ykkur leiða. Þegar öllu er á botninn hvolft felst tilgangurinn einmitt í því. 

En nú er sannarlega tími til að njóta þess sem áunnist hefur, fagna með fjölskyldum ykkar og vinum. Framtíðin er ykkar. Og hún er sannarlega björt. Gangið því fagnandi út í daginn. Til hamingju.
 

Jón Atli Benediktsson rektor í pontu í Háskólabíói í dag