Skip to main content
10. maí 2017

Aurora-samstarfsnetið fundar í Háskóla Íslands

""

Nýverið var stofnað undir heitinu Aurora samstarfsnet níu öflugra evrópskra háskóla sem allir eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að styðja samfélögin sem þeir starfa í við að takast á við áskoranir samtímans. Háskóli Íslands er stofnaðili að samstarfsnetinu. Rektorar Aurora og aðrir fulltrúar háskólanna koma saman í Háskóla Íslands dagana 11. og 12. maí nk. til að ræða aukið samstarf og hvernig skólarnir geta lagt af mörkum til samfélaganna sem þeir eru sprottnir úr. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir það vera mikla viðurkenningu fyrir Háskóla Íslands að hafa verið valinn til að taka þátt í stofnun samstarfsnets þessara öflugu háskóla. „Háskóli Íslands hefur náð eftirtektarverðum árangri á fjölmörgum sviðum á síðustu árum sem birtist m.a. í miklu alþjóðlegu vísindasamstarfi og sterkri stöðu hans á alþjóðlegum matslistum yfir fremstu háskóla á alþjóðavísu. Aðildin að Aurora er mikilvæg viðurkenning á þessum árangri og gefur fjölmörg tækifæri til frekari sóknar fyrir Háskóla Íslands og íslenskt samfélag,“ segir Jón Atli. 

Auk rektoranna verður á fundinum fjölmennur hópur vísindamanna auk annarra starfsmanna háskólanna níu sem taka þátt í vinnustofum um valin samstarfsverkefni, þ. á m. margbreytileika, áhrifamátt rannsókna, miðlun vísinda og stafræna kennslu, svo nokkuð sé nefnt. „Aurora-netið er alveg ný tegund samstarfs háskóla og gefur einstakt tækifæri til að miðla og læra af því sem best er gert í hverjum aðildarskóla auk þess sem háskólarnir sameina krafta sína til að ná lengra en þeir geta gert hver fyrir sig. Aðeins einum háskóla frá hverju þátttökulandanna var boðin stofnaðild að Aurora og þannig skapast traust og samvinna sem gengur lengra en hefðbundin háskólasamtök,“ segir rektor Háskóla Íslands. 

Á fundinum verður einnig haldið málþing föstudaginn 12. maí kl. 13.30 undir yfirskriftinni „Roles and responsibilities of universities in a post-truth/alternative facts society“ og fjallar um stöðu og hlutverk háskóla í samtímanum. Víða um heim hafa að undanförnu sprottið upp öfl sem afneita vísindalegri þekkingu og reyna að afvegaleiða opinbera umræðu. „Þessu fylgja áskoranir fyrir allt samfélagið og háskólana sem grundvalla starf sitt á vísindalegri þekkingarleit og sannreyndum gögnum. Háskólar eru uppspretta nýrrar þekkingar og hugmynda og hafa ríkum skyldum að gegna gagnvart upplýstri og lýðræðislegri samfélagslegri umræðu. Þetta verður viðfangsefni málþingsins,“ segir Jón Atli. 

Fundarstjóri verður Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Fundur Aurora verður haldinn í Veröld – húsi Vigdísar og er þetta fyrsti stóri viðburðurinn í þessari glæsilegu nýbyggingu Háskóla Íslands. 

Aðildarháskólar Aurora-samstarfsnetsins

Stofnháskólar Aurora-samstarfsnetsins eru auk Háskóla Íslands, Vrije-háskóli í Amsterdam (Hollandi), Grenoble-Alpes háskóli (Frakklandi), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi), Háskólinn í Antwerpen (Belgíu), Háskólinn í Björgvin (Noregi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), East Anglia háskóli (Englandi) og Gautaborgarháskóli (Svíþjóð).

Frá stofnfundi Aurora-samstarfsnetsins í Amsterdam í haust.