Skip to main content
25. maí 2016

Alþjóðlegt námskeið um forystu í hjúkrun

""

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands stóð fyrir alþjóðlegu námskeiði um forystu í hjúkrun og heilbrigðisþjónustu dagana 17.- 20. maí sl. Námskeiðið var haldið í samvinnu við University of Minnesota og tóku samtals 27 meistara- og doktorsnemendur úr skólunum tveimur þátt. Helga Bragadóttir dósent og Hildur Sigurðardóttir lektor, báðar við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og Teddie Potter, dósent við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota, höfðu veg og vanda að undirbúningi námskeiðsins.

Formleg setning námskeiðsins fór fram mánudaginn 17. maí í Eirbergi þar sem Hjúkrunarfræðideild bauð til móttöku fyrir þátttakendur í námskeiðinu, starfsfólk Hjúkrunarfræðideildar og aðra gesti. Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar, ávarpaði samkomuna og bauð erlendu gestina sérstaklega velkomna.

Námskeiðið fjallaði um forystu í heilbrigðisþjónustu með hnattrænni nálgun og nefndist „Leadership in nursing – a global approach“. Þar unnu nemendur stórt verkefni í hópum um helstu áskoranir í starfi stjórnenda og leiðtoga í heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Þá voru einnig á dagskrá fjöldi fyrirlestra um hnattræna nálgun forystu og stjórnunar í heilbrigðisþjónustu frá innlendum og erlendum sérfræðingum. Kennslan fór fram í Eirbergi en nemendur og kennarar fóru í vettvangsferðir á heilbrigðisstofnanir, skoðuðu sögufræga staði innan bæjar og utan og kynntu sér helstu náttúruperlur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.Verkefni námskeiðsins komu inn á heildræna nálgun á líf og heilsu almennings, fjölbreytileika, frumleika og hlutverk framtíðarleiðtoga í heilbrigðisþjónustu. Námskeiðinu lauk svo með kynningu á niðurstöðum hópavinnunnar.

Skoða myndir frá námskeiðinu og móttökunni í Eirbergi.

Frá vinstri: Helga Bragadóttir, dósent, Hildur Sigurðardóttir, lektor, báðar við Hjúkrunarfræðideild HÍ, Teddie Potter, dósent, og Judy Pechacek, lektor, báðar við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota.
Frá vinstri: Teddie Potter, dósent, Judy Pechacek, lektor, og Connie Delaney, deildarforseti, allar við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota, Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ.
Frá vinstri: Helga Bragadóttir, dósent, Hildur Sigurðardóttir, lektor, báðar við Hjúkrunarfræðideild HÍ, Teddie Potter, dósent, og Judy Pechacek, lektor, báðar við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota.
Frá vinstri: Teddie Potter, dósent, Judy Pechacek, lektor, og Connie Delaney, deildarforseti, allar við Hjúkrunarfræðideild University of Minnesota, Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ.