Skip to main content
13. júlí 2016

Alþjóðleg verðlaun fyrir jákvæð samfélagsleg áhrif

""

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur hlotið verðlaun fyrir bestu tæknilausnina í flokki viðskipta og verslunar á ráðstefnu World Summit Award, alþjóðlegum samtökum á vegum Sameinuðu þjóðanna.Prófessor við Háskóla Íslands, sem er sérfræðingur hjá World Summit Award fyrir Ísland og velur verkefni frá Íslandi í keppnina, segir verðlaunin mikla viðurkenningu fyrir íslenska frumkvöðlastarfsemi.

Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnandi Meniga, flutti nýverið lokakynningu á stóra sviði Park Royal hótelsins í Singapúr sem innsiglaði sigur Meniga. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Singapúr þann 1. júlí síðastliðinn á árlegri ráðstefnu samtakanna. 

Markmið World Summit Award samtakanna er að verðlauna þau fyrirtæki sem þykja skara fram úr í þróun á tæknilausnum sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif og bar Meniga sigur úr býtum í sínum flokki en alls bárust ráðstefnunni yfir 400 tilnefningar frá 86 löndum.

Mikill heiður að fá verðlaun fyrir jákvæð áhrif á samfélagið

Yfir 35 milljónir manna í um tuttugu löndum hafa nú aðgang að heimilisfjármálalausnum Meniga. Að hjálpa fólki að ná betri tökum á fjármálum sínum hefur verið aðalmarkmið Meniga frá stofnun fyrirtækisins. 

„Aukið fjármálalæsi og skynsamlegri fjármálahegðun einstaklinga og heimila er eitt stærsta málefni samtímans. Of mikið af fólki um allan heim, þar með talið fólk með góðar tekjur, á lítinn sem engann sparnað sér til stuðnings þegar lífið tekur óvænta stefnu. Helsta ástæðan fyrir stofnun Meniga fyrir 7 árum var sú sterka trú að við gætum verulega bætt lífsgæði með því að búa til lausnir sem hjálpa einstaklingum og fjölskyldum um allan heim að skilja og skipuleggja fjármálin sín. Þessi viðurkenning hefur því sérstaka þýðingu fyrir okkur og við erum gríðarlega stolt að fá þessa hvatningu frá Sameinuðu þjóðunum,” segir Georg Lúðvíksson.

Mikil viðurkenning fyrir íslenska frumkvöðlastarfsemi á sviði hugbúnaðarþróunar

Jóhann Pétur Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, hefur kennt nýsköpunar- og frumkvöðlanámskeið í tæpan aldarfjórðung. Jóhann er sérfræðingur og dómari hjá World Summit Award og velur verkefni frá Íslandi til að taka þátt í keppninni. Jóhann hefur sjálfur komið að stofnun margra sprotafyrirtækja og einnig verið alþjóðlegur ráðgjafi hjá fyrirtækjum eins og Apple Computers.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir íslenska frumkvöðlastarfsemi í hugbúnaðariðnaði og sérstaklega fyrir Meniga þar sem þetta eru virt alþjóðleg verðlaun. Meniga var að keppa við lausnir frá 86 löndum og er eina verkefnið frá Norðurlöndum sem komst í lokakeppnina,“ segir Jóhann.

„Þetta er í annað sinn sem íslenskt fyrirtæki hlýtur fyrstu verðlaun hjá World Summit Awards og það undirstrikar að við erum á réttri leið í nýsköpun. Minn draumur er að fleiri íslensk fyrirtæki fylgi í fótspor Meniga og CCP og að við getum haldið áfram að skapa fleiri vel launuð störf í hugbúnaðariðnaði á Íslandi. Undirstaða góðs árangurs sprotafyrirtækja er vel menntað starfsfólk með ólíkan bakgrunn og reynslu og það er ánægjulegt að innan Háskóla Íslands er mikil þekking á mörgum sviðum til að stuðla að samstarfi fólks úr ólíkum greinum. Það er sérstaklega verðmætt þegar íslenskt hugvit er notað til verðmætasköpunar og skilar erlendum tekjum sem er undirstaða bættra lífskjara á Íslandi,“ segir Jóhann enn frekar.

Starfsmenn Meniga taka á móti World Summit verðlaununum í Singapúr.
Jóhann Pétur Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, við dómarastörf hjá WSA í Singapúr.
Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga, tekur við Global World Summit Awards verðlaununum í Singapúr. Ásamt honum á myndinni eru H.E. Ahmad Alhendawi, sendifulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum og heiðursgestur, Gabriel Lim, fulltrúi Upplýsinga- og samskiptaráðuneytis Singapúr, og Peter A. Bruck, prófessor og formaður World Summit Award verðlaunanna.
Starfsmenn Meniga taka á móti World Summit verðlaununum í Singapúr.
Jóhann Pétur Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, við dómarastörf hjá WSA í Singapúr.
Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga, tekur við Global World Summit Awards verðlaununum í Singapúr. Ásamt honum á myndinni eru H.E. Ahmad Alhendawi, sendifulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum og heiðursgestur, Gabriel Lim, fulltrúi Upplýsinga- og samskiptaráðuneytis Singapúr, og Peter A. Bruck, prófessor og formaður World Summit Award verðlaunanna.