Skip to main content
1. febrúar 2016

Afhentu námsstyrki í nafni Kjartans G. Ottóssonar

""

Fjölskylda Kjartans G. Ottóssonar hefur veitt tveimur framúrskarandi nemendum í íslensku námsstyrki í hans nafni. Styrkirnir voru afhentir á 30. Rask-ráðstefnunni um íslenskt mál og almenna málfræði sem fram fór í Þjóðminjasafninu á föstudag og laugardag. Íslenska málfræðifélagið og Málvísindastofnun Háskóla Íslands stóðu að ráðstefnunni sem var að þessu sinni helguð minningu Kjartans G. Ottóssonar, prófessors í íslensku við Háskólann í Ósló, sem hefði orðið sextugur 14. janúar síðastliðinn.  

Styrkina hlutu þau Elínrós Þorkelsdóttir og Atli Freyr Steinþórsson fyrir framúrskarandi árangur í íslenskunámi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Kjartan G. Ottósson útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974, þá 18 ára gamall og var dúx úr áfangakerfi. Hann lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1979 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1982. Doktorsprófi lauk Kjartan frá Lundi árið 1992. Að auki stundaði hann doktorsnám við University of Maryland á árunum 1988 til 1992. Kjartan var skipaður prófessor í íslensku við Háskólann í Osló árið 1992 og starfaði þar til dauðadags, en hann lést á líknardeild Landspítalans 28. júní 2010.

Kjartan var mikilvirkur fræðimaður og liggja eftir hann bækur og fjöldi greina í bæði innlendum og erlendum fræðitímaritum. Rannsóknir hans voru einkum á sviði íslenskrar og norrænnar málfræði og málsögu en þar fjallaði hann meðal annars um þróun miðmyndar í íslensku og norrænum málum, um norsk máláhrif í íslensku til forna og miðnorska málþróun, um málbreytingar og málheimildir og um sögu íslenskrar málræktar. Kjartan stýrði framhaldsnámi í málvísindum og textafræði við Óslóarháskóla 2000-2002 og tók þátt í ýmsum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, svo sem FORSE — Forskergruppe i samfunn og språkendring við Björgvinjarháskóla frá 2007 og Linguistic Theory and Grammatical Change við Centre for Advanced Study í Ósló 2004-2005. Þá átti hann sæti í ritstjórn tímaritsins Collegium medievale 2002-2007. Kjartan var í forsvari fyrir Heimskringlu-rannsóknarverkefninu við Institutt for lingvistiske og nordiske studier á árunum 1993-2000. Í febrúar 2008 fékk Kjartan hin kunnu Ingerid Dal og Ulrikke Greve Dal verðlaun fyrir rannsóknir sínar á indóevrópskum tungumálum og sögu íslenskrar tungu.

Elínrós Þorkelsdóttir og Atli Freyr Steinþórsson taka við námsstyrkjum fyrir framúrskarandi árangur í íslenskunámi
Styrkþegarnir með systkinum Kjartans G. Ottóssonar. F.v.: Óttar, Gerlaug, Helga og Elínrós.
Elínrós Þorkelsdóttir og Atli Freyr Steinþórsson taka við námsstyrkjum fyrir framúrskarandi árangur í íslenskunámi
Styrkþegarnir með systkinum Kjartans G. Ottóssonar. F.v.: Óttar, Gerlaug, Helga og Elínrós.