Skip to main content
17. maí 2016

Af hverju henda Íslendingar mat?

""

Kennarar við Sálfræðideild Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum við skólann hafa hleypt af stokkunum rannsókn þar sem ætlunin er að kanna ástæður fyrir matarsóun hér á landi. Dr. Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, er ábyrg fyrir rannsókninni sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.   

Margar ástæður geta verið fyrir því að mat er hent á heimilum. Sumar tengjast innkaupum eða geymslu á mat en aðrar gætu verið persónulegri. Um það bil þriðjungi matvæla er hent á heimilum og til þess að geta hannað forvarnir eða inngrip til þess að draga úr sóun matvæla er mikilvægt að rannsaka hvað býr að baki hegðuninni.

Eitt þúsund Íslendingum, sem valdir voru af handahófi, hefur nú borist bréf með boði um þátttöku í könnuninni sem er svarað á netinu í gegnum slóð sem gefin er upp í bréfinu. Fólk er hvatt til að svara sem fyrst. Þeim sem svara býðst þátttaka í happdrætti þar sem í boði eru girnilegir vinningar. 

Mikilvægt er að draga úr matarsóun á öllum stigum í keðju matvæla, í framleiðslu, flutningi, sölu og á heimilum. Með því má draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og stuðla að meira félagslegu réttlæti í dreifingu matvæla. 

Matur
Matur