Skip to main content
23. nóvember 2016

Á slóðum tilvistarspurninga og tilvistartúlkunar

""

Gunnar J. Gunnarsson, nýráðinn prófessor í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið, hélt kynningarfyrirlestur þann 16. nóvember síðastliðinn við Háskóla Íslands í tilefni af framgangi sínum. 

Fyrirlesturinn, sem bar yfirskriftina Á slóðum tilvistarspurninga og tilvistartúlkunar, var vel sóttur og leitaði Gunnar víða fanga í erindi sínu. Meðal umfjöllunarefna voru svokallaðar tilvistarspurningar, sem virðast fylgja manninum og setti hann þær í samhengi við eigin rannsóknir. Benti hann á að fólk tekst á við tilvistarspurningar í ólíkum aðstæðum lífsins og þær birtast með ýmsu móti, meðal annars í dægurmenningu. 

Leitin að tilgangingum 

Gunnar hefur lengi rannsakað trú og lífsviðhorf barna og ungmenna og trúarbragðakennslu í skólum hér á landi. „Á tímum fjölmenningar og fjölhyggju er mikilvægt að nemendur öðlist hæfni til að fást við og ræða inntak og hefðir ólíkra trúarbragða og lífsskoðana um leið og þeir vinna með eigin reynslu, hugmyndir og tilvistarspurningar,“ segir hann um þær þjóðfélagsbreytingar sem við höfum séð, ekki hvað síst með hraðri þróun frá trúarlegri einsleitni til menningar- og trúarlegs margbreytileika. 

En hvaða áherslur eru heppilegar í trúarbragðafræðslu ungmenna? „Að mínu mati mætti nýta betur þætti og stef úr dægurmenningu og öðrum geirum menningar, sem búa yfir trúarlegum og tilvistarlegum vísunum, til að efna til samræðu um trúarbrögð og lífsskoðanir, tilvist og túlkun og leitina að tilgangi og merkingu,“ bætir Gunnar við og tekur fram að þótt víða sé vel staðið að trúarbragðafræðslu í skólum megi gera betur því menntun á þessu sviði sé afar mikilvæg í nútímasamfélögum.

Um Gunnar

Gunnar J. Gunnarsson er fæddur í Reykjavík 30. október 1950. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1971 og að því loknu lagði hann stund á nám í guðfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol.-gráðu 1978. Kennsluferill Gunnars hófst samhliða námi og starfaði hann í hlutastarfi sem kennari við Vogaskóla og Vistheimili barna við Dalbraut. Hann var skipaður lektor við Kennaraháskóla Íslands 1993 og hlaut framgang í stöðu dósents við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2011 og síðan í stöðu prófessors 2016. 

Eftir hann liggur fjöldi fræðilegra ritrýndra greina og bókarkafla um viðhorf unglinga, trúarbragðafræðslu, námskrár og uppeldi, gildismat og fjölmenningu. Þá hefur hann samið námsefni fyrir grunnskóla um helstu trúarbrögð heims og ber þar hæst bókin Maðurinn og trúin. Trúarbragðafræði handa grunnskólum sem hefur verið gefin út tvisvar af Námsgagnastofnun. 

Myndir frá kynningarfyrirlestrinum.

Gunnar J. Gunnarsson, nýráðinn prófessor í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið.
Gunnar J. Gunnarsson, nýráðinn prófessor í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið.