Skip to main content
1. desember 2018

63 nýir doktorar heiðraðir á fullveldisdaginn í Háskóla Íslands

Sextíu og þrír doktorar tóku í morgun við gullmerki Háskóla Íslands að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á árlegri Hátíð brautskráðra doktora í Hátíðasal skólans. Doktorarnir eiga það sameiginlegt að hafa brautskráðst frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1. desember 2017 til 1. desember 2018 og er þetta í áttunda sinn sem Háskólinn heiðrar doktora frá skólanum með þessum hætti.

Háskóli Íslands hefur í á annan áratug unnið að markvissri eflingu doktorsnáms og nú stunda um 600 nemendur slíkt nám við skólann. Í námi sínu og með framlagi til kennslu og rannsókna innan skólans leggja doktorsnemar mikið af mörkum, bæði til íslensks samfélags og í eflingu Háskólans sem alþjóðlegrar rannsóknastofnunar. Þetta sést m.a. á góðum árangri skólans í birtingu vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum og stöðu hans á tveimur áhrifamestu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai University Rankings.

Doktorsnemar, í samstarfi við leiðbeinendur sína, leggja sömuleiðis sín lóð á vogarskálarnar í leit hins alþjóðlega vísindasamfélags að lausnum við brýnustu viðfangsefnum samtímans. Afrakstur rannsókna doktorsnema er hins vegar ekki aðeins ný þekking á fjölmörgum sviðum heldur geta verkefni þeirra leitt til stofnunar nýrra sprotafyrirtækja sem auðga íslenskt atvinnulíf. Það skiptir því miklu máli fyrir íslenskt samfélag að hafa öflugan rannsóknaháskóla sem stuðlar að því að Ísland sé samkeppnisfært í vísindum, nýsköpun og atvinnuþróun innan þekkingarsamfélags þjóðanna. 
Á athöfninni í dag tóku doktorsnemar frá öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands við gullmerki skólans, alls 24 karlar og 39 konur. Það er til marks um hversu alþjóðlegur Háskóli Íslands er orðinn að 44 prósent doktoranna, sem brautskráðust á tímabilinu 1. desember 2017 til 1. desember 2018, eru með erlent ríkisfang. Sá hópur kemur víða að, frá 19 löndum Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Enn fremur brautskrást fimm doktoranna með sameiginlega doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og erlendum háskóla. Við þetta má bæta að alls munu tæplega 60 nemar ljúka doktorsprófi á árinu 2018 og verður heildarfjöldi doktora sem brautskráðst hefur frá Háskóla Íslands frá upphafi á sjöunda hundrað í lok árs. 

Hefð er fyrir því að forseti Íslands ávarpi brautskráða doktora við athöfnina í Hátíðasal og færði Guðni Th. Jóhannesson doktorunum bæði hamingjuóskir og hvatningarorð í ræðu sinni í dag. Þá flutti Skafti Ingimarsson, doktor í sagnfræði, ávarp fyrir hönd nýbrautskráðra doktora.

Háskóli Íslands færir hinum glæsilega hópi sem tók við gullmerki skólans í dag innilegar hamingjuóskir með áfangann og óskar honum velgengni í þeim fjölbreyttu störfum sem taka við í framtíðinni.

Yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2017 til 1. desember 2018 og verkefni þeirra má finna í meðfylgjandi bæklingi.
 

Fleiri myndir frá athöfninni

Nýir doktorar og fulltrúar þeirra að lokinni athöfn ásamt forseta Íslands, rektor Háskóla Íslands, aðstoðarrektorum og forsetum fræðasviða skólans. MYND/Kristinn Ingvarsson