Skip to main content
17. nóvember 2016

170 manns sóttu afmælismálþing Fél. stjórnsýslufræðinga

""

Félag stjórnsýslufræðinga fagnar 10 ára afmæli sínu um þessar mundir og fagnaði því með afmælismálþingi í Hátíðasal Háskóla Íslands. Um 170 manns sóttu málþingið sem fór fram þann 10. nóvember 2016. Félagið stofnuðu útskriftarnemar úr MPA-námi Stjórnmálafræðideildar Háskóla Ísands, en auk þeirra eru í félaginu stjórnsýslufræðingar sem lokið hafa námi víðs vegar um heiminn. Sjá hér um félagið: http://www.stjornsysla.is/

Málþingið var haldið í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða við HÍ og rætt um áhrifamestu stjórnsýsluumbætur síðustu áratuga, s.n. Nýskipan í ríkisrekstri eða The New Public Management.  

Málþingið var afar vel sótt og góður rómur gerður af fyrirlestrunum, en aðalfyrirlesari var einn helsti fræðimaður heims á þessu sviði, Christopher Hood, prófessor við Oxford-háskóla. Hann er höfundur heitisins New Public Management og bækur hans hafa um árabil verið kenndar við Stjórnmálafræðideild. 

Hood  nefndi erindi sitt Yesterday's Tomorrow? The New Public Management in Perspective. Auk hans flutti Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ, erindið „Eftir útskipun: Laustengd tengslanet um verkefni, sérhæfðar viðbragðs- og viðbúnaðaráætlanir eða samhent stjórnsýsla?“ og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ, tók einnig til máls með erindið „Er til norræn leið við stjórnsýsluumbætur?“ Þá fluttiFriðrik Sophusson, fv. fjármálaráðherra, sem var í forystu umbótanna hér á landi á sínum tíma, ávarp af myndbandi sem hann nefndi „Horft um öxl. Hvað má læra af okkar reynslu?“ Loks ræddi Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneyti, framtíðarhorfur undir yfirskriftinni „Horft til framtíðar. Áform um umbætur á grunni nýrra laga um opinber fjármál.“

Fundarstjóri var Steinunn Halldórsdóttir, stjórnsýslufræðingur í forsætisráðuneyti, sem gaf einnig stutt yfirlit yfir umbótaverkefni sem unnið er að í því ráðuneyti.

Christopher Hood
Christopher Hood