Háskóli Íslands

Siðareglur

Siðareglur Háskóla Íslands

Samþykktar á 11. háskólafundi 7. nóvember 2003

Prentgerð (.pdf)

Formáli

Siðareglur þessar eru samþykktar af háskólafundi, í nafni háskólasamfélagsins. Með skráningu þeirra eru fangaðir í orð helstu þættir þeirrar siðferðilegu ábyrgðar sem er samofin störfum við Háskóla Íslands, í þeim tilgangi að hvetja og aðstoða starfsfólk hans við að sinna störfum sínum á vandaðan og árangursríkan hátt. Með reglum um málsmeðferð er einnig skapaður farvegur trúnaðar og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt.

Störf innan Háskólans miða að því, hvert með sínum hætti, að lögbundnu hlutverki hans verði sem best sinnt, en samkvæmt 1. gr. laga um Háskóla Íslands skal hann vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu. Margvíslegar lögfestar reglur móta þetta hlutverk og mæla fyrir um lagalega ábyrgð á háskólastarfseminni og formleg viðurlög ef út af ber. Slíkar reglur mæla þó fjarri því fyrir um alla breytni. Skráðar siðareglur eiga sér samsvörun í ýmsum lagareglum og eðli málsins samkvæmt er æskilegt að sem mest samræmi ríki þar á milli. Mikilvægasta hlutverk skráðra siðareglna er að veita almennari viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum er ætlað, enda gilda þær áfram þegar hinum lögfestu reglum sleppir. Svipuð sjónarmið liggja að baki leiðbeiningum um góða starfshætti, sem Háskóli Íslands hefur m.a. tekið upp varðandi kennslu og próf.

Siðferðileg ábyrgð starfanna fer eftir eðli þeirra og tilgangi. Þess vegna skiptast siðareglurnar í tvo meginhluta; fyrst almennan hluta, sem á jafnt við um alla háskólaborgara (starfsfólk og nemendur), og síðan sérstakan hluta fyrir akademísk störf (kennslu, nám og rannsóknir). Þau ákvæði er lúta að kennslu eiga við um alla sem hana stunda, bæði fastráðna kennara, stundakennara og aðstoðarkennara úr hópi nemenda. Þau ákvæði sem lúta að rannsóknum eiga við um alla sem þær stunda og ákvæði er lúta að stjórnun og þjónustu eiga við um alla sem gegna stjórnunarskyldu eða starfa við stjórnsýslu.

Æskilegt er að skráðar reglur skýri sérstaklega ólíka ábyrgð þeirra er starfa og nema í hinum ýmsu deildum og skorum skólans, til dæmis ábyrgð við rannsóknir á mismunandi rannsóknarsviðum. Slík nánari útfærsla fellur í verkahring deilda, skora, annarra starfseininga innan Háskólans, sem og fagfélaga, en ekki háskólasamfélagsins í heild.

Siðareglur

1. Almenn ákvæði

1.1 Ábyrgð gagnvart þeim sem leita til Háskóla Íslands

Frumskylda
1.1.1 Starfsfólk Háskólans veitir aðilum innan eða utan hans þjónustu og innir hana vel og samviskusamlega af hendi.

Jafnræði
1.1.2 Starfsfólk Háskólans mismunar ekki skjólstæðingum sínum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Það veitir engum sérstaka fyrirgreiðslu á grundvelli persónulegra tengsla.

Trúnaður
1.1.3 Starfsfólk Háskólans gætir trúnaðar við skjólstæðinga sína. Það gætir þess að persónuupplýsingar séu einungis notaðar í málefnalegum tilgangi og að aðgengi að slíkum upplýsingum takmarkist af því. Það gætir fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni skjólstæðinga eru til umræðu.

Áreiðanleiki
1.1.4 Starfsfólk Háskólans gætir þess að upplýsingar sem það veitir séu réttar og eins nákvæmar og kostur er. Það fullyrðir ekki meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni, heldur viðurkennir hvenær þekking þess er takmörkuð, aflar sér upplýsinga, eða vísar fyrirspurnum til viðeigandi aðila.

1.2 Ábyrgð gagnvart Háskóla Íslands

Frumskylda
1.2.1 Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.

Málefnaleg gagnrýni
1.2.2 Starfsfólki og nemendum Háskólans er frjálst að gagnrýna stefnu hans og starfshætti á málefnalegan hátt.

Hollusta
1.2.3 Starfsfólk og nemendur Háskólans leitast við að skaða ekki orðstír hans. Þeir forðast að taka að sér verkefni sem ekki samræmast skyldum þeirra við hann.

Metnaður
1.2.4 Starfsfólk og nemendur leggja sig fram um að Háskólinn sinni hlutverki sínu og að siðareglur hans séu haldnar.

Persónuleg ábyrgð
1.2.5 Kennarar, sérfræðingar og nemendur birta rannsóknarniðurstöður sínar í eigin nafni eða nafni viðkomandi stofnunar innan Háskólans. Enginn getur látið uppi álit Háskóla Íslands annar en háskólafundur, háskólaráð eða rektor í umboði þeirra.

Meðferð fjármuna og annarra verðmæta
1.2.6 Starfsfólk og nemendur Háskólans gæta þess að fara vel með fjármuni og önnur verðmæti, sem þeim er trúað fyrir eða þeir hafa til umráða vegna starfs síns eða náms, og nota þau ekki í þágu einkahagsmuna sinna.

1.3 Ábyrgð gagnvart öðrum háskólaborgurum

Frumskylda
1.3.1 Starfsfólk og nemendur Háskólans sýna hver öðrum virðingu í framkomu, ræðu og riti.

Jafnræði
1.3.2 Starfsfólk og nemendur Háskólans gæta þess að mismuna ekki hver öðrum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Þeir leggja ekki hver annan í einelti og eru á varðbergi gagnvart einkennum þess.

Málefnaleg umræða
1.3.3 Starfsfólk og nemendur Háskólans haga skoðanaskiptum á málefnalegan hátt.

Samvinna
1.3.4 Starfsfólk og nemendur Háskólans vinna saman af heilindum og forðast að láta persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.

2. Rannsóknir, kennsla og nám

2.1 Ábyrgð gagnvart fræðunum

Frumábyrgð
2.1.1 Kennarar, sérfræðingar og nemendur vinna í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Þeim ber umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund.

Hæfni
2.1.2 Kennarar, sérfræðingar og nemendur leitast við að varðveita og efla faglega hæfni sína. Störf þeirra skulu sýna að þeim er umhugað um góða starfshætti á eigin fræðasviði.

Vandvirkni og heilindi
2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þeir forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu. Verði þeim á mistök viðurkenna þeir þau og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

Heiðarleiki
2.1.4 Kennarar, sérfræðingar og nemendur setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. Þegar þeir nýta sér hugverk annarra geta þeir ávallt heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Rannsóknafrelsi
2.1.5 Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.

Samstarf og hreinskilni
2.1.6 Kennarar, sérfræðingar og (eftir atvikum) nemendur birta niðurstöður rannsókna sinna á opinberum vettvangi. Þeir leyna ekki niðurstöðum, aðferðum, hugmyndum eða tækni nema brýnar og almennt viðurkenndar ástæður krefji. Þeir eru opnir fyrir gagnrýni, samstarfi og nýjum hugmyndum.

Vernd þátttakenda í rannsóknum
2.1.7 Kennarar, sérfræðingar og nemendur virða réttindi þátttakenda í rannsóknum og gæta þess að hagsmunir þeirra njóti ýtrustu verndar. Þeir gæta mannúðar við rannsóknir á dýrum.

2.2 Gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda

Frumábyrgð kennarans
2.2.1 Kennarar stuðla að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi kröfum, hvatningu og góðu fordæmi.

Jafnræði
2.2.2 Kennarar gæta þess að mismuna ekki nemendum og nemendur ekki kennurum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Þeir leggja ekki hver annan í einelti og eru á varðbergi gagnvart einkennum þess.

Leiðsögn
2.2.3 Kennarar temja nemendum sínum heilindi í ræðu og riti. Þeir haga kennslu, leiðsögn og þjálfun samkvæmt ýtrustu kröfum fræðigreinar sinnar um vönduð vinnubrögð. Þeir taka jafnframt mið af þeim starfsháttum við kennslu og próf sem Háskólinn viðurkennir.

Virðing
2.2.4 Kennarar virða réttindi nemenda sinna og hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

Trúnaður
2.2.5 Kennarar gæta trúnaðar við nemendur. Þeir sýna fyllstu aðgát hvenær sem málefni þeirra eru til umræðu og gæta þess að gögn um nemendur komist ekki í hendur óviðkomandi.

Áreiðanleiki
2.2.6 Kennarar veita nemendum tímanlega réttar upplýsingar um þær kröfur sem þeir eða Háskólinn gera til nemenda. Þeir standa við skuldbindingar sínar gagnvart nemendum. Þeir hraða skilum á einkunnum og verkefnum eins og kostur er.

Sanngirni
2.2.7 Kennarar gera sanngjarnar kröfur til nemenda og vanda námsmat. Ef grunur leikur á misferli nemenda fylgja þeir málinu eftir.

Viðurkenning
2.2.8 Kennarar viðurkenna framlag nemenda til rannsókna með sanngjörnum hætti.

Ábyrgð í valdastöðu
2.2.9 Kennarar gera sér ljósa valdastöðu sína í samskiptum við nemendur og gæta þess að misnota hana ekki.

Ábyrgð nemenda
2.2.10 Nemendur sýna kennurum sínum kurteisi og tillitssemi, hlíta sanngjörnum fyrirmælum þeirra og eru heiðarlegir í samskiptum við þá. Þeir forðast allt misferli og taka mið af leiðbeiningum Háskólans um góða starfshætti við kennslu og próf.

2.3 Ábyrgð kennara og sérfræðinga gagnvart öðrum akademískum starfsmönnum, bæði innan og utan Háskólans

Frumskylda
2.3.1 Kennarar og sérfræðingar sýna hver öðrum virðingu í framkomu, ræðu og riti.

Jafnræði
2.3.2 Kennarar og sérfræðingar gæta þess að mismuna ekki hver öðrum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Þeir leggja ekki hver annan í einelti og eru á varðbergi gagnvart einkennum þess.

Fagleg samstaða
2.3.3 Kennarar og sérfræðingar verja frelsi hver annars til rannsókna og tjáningar á fræðilegri sannfæringu sinni.

Viðurkenning
2.3.4 Kennarar og sérfræðingar viðurkenna framlag hver annars til rannsókna.

Óhlutdrægni
2.3.5 Kennarar og sérfræðingar gera sér ljósa þá ábyrgð sem fylgir dómnefndarstörfum, ritrýni og öðru jafningjamati. Þar styðjast þeir við fagleg sjónarmið en ekki persónuleg.

2.4 Ábyrgð gagnvart samfélaginu

Frumábyrgð
2.4.1 Kennarar, sérfræðingar og nemendur leggja sig fram um að efla rannsóknir í samfélaginu, sem og frjáls, málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti.

Fagmennska
2.4.2 Kennarar, sérfræðingar og nemendur sem taka þátt í opinberri umræðu eða sinna félags- og stjórnmálum gera það samkvæmt eigin sannfæringu. Jafnframt eru þeir minnugir um ábyrgð sína sem háskólaborgarar.

Samvitund
2.4.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur huga á ábyrgan hátt að afleiðingum kennslu sinnar og rannsókna fyrir samfélag, umhverfi og náttúru.

3. Viðbrögð við brotum á siðareglum Háskóla Íslands

3.1 Starfsfólk Háskólans er vakandi fyrir því að halda siðareglur skólans. Ef starfsmaður verður þess áskynja að reglurnar hafi verið brotnar gerir hann viðvart um það, með því að beina erindi til rektors eða siðanefndar Háskóla Íslands. Rökstudd ásökun um brot á siðareglum má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram.

3.2 Siðanefnd Háskóla Íslands hefur það hlutverk að skera úr um það hvort siðareglur Háskólans hafi verið brotnar. Nefndin tekur við erindum frá aðilum innan og utan Háskólans, en tekur ekki mál upp að eigin frumkvæði.

3.3 Siðanefnd starfar samkvæmt starfsreglum sem háskólaráð staðfestir. Reglurnar lýsa meðferð mála fyrir nefndinni, meðal annars varðandi það hvernig nefndin aflar gagna og athugasemda málsaðila og hvernig hún upplýsir mál og birtir niðurstöður sínar. Tekið er mið af málsmeðferð fyrir dómstólum og opinberum stjórnvöldum sem ætlað er að tryggja óhlutdrægni og málefnalega umfjöllun.

3.4 Niðurstaða siðanefndar í máli er bæði rökstudd og afdráttarlaus. Nefndin mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum á siðareglum, en tekur afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.

3.5 Niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum er endanleg og verður ekki áfrýjað. Ef niðurstaða nefndarinnar bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga vísar nefndin málinu til rektors sem grípur til viðeigandi ráðstafana lögum samkvæmt. Ef um er að ræða ágreining eða brot á lagareglum, sem heyrir undir aðila utan Háskólans vísar nefndin málinu frá.


Starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands

Samþykktar á 11. háskólafundi 7. nóvember 2003, með breytingum samþykktum á 21. háskólafundi 17. nóvember 2006 [og breytingum samþykktum í háskólaráði 13. október 2011.]*

1. gr. Almennt.

Við Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur Háskóla Íslands hafi verið brotnar.Siðanefnd tekur við skriflegum kærum um meint brot á siðareglum frá nafngreindum aðilum innan eða utan Háskólans. Nefndin tekur ekki mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

Starf siðanefndar skal, eftir því sem við á, taka mið af meginreglum um óhlutdrægni og vandaða málsmeðferð, m.a. hvað varðar stöðu málsaðila og tillit til hagsmuna þeirra. [Er í því efni vísað til meginreglna stjórnsýsluréttar um meðferð mála sem miða að því að tryggja vandaða og málefnalega umfjöllun um hvert mál.]*

Til þess að tryggja hagsmuni málsaðila getur siðanefnd ákveðið að farið sé með málsgögn og niðurstöður einstakra kæra sem trúnaðarmál. Siðanefnd getur einnig, ef sérstaklega stendur á, ákveðið að kærandi njóti nafnleyndar, enda sé sýnt að meðferð kærunnar geti að öðrum kosti bitnað á honum.

2. gr. Nefndarskipun.

Formaður siðanefndar er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann. Þegar fram kemur kæra um brot á siðareglum getur rektor skipað tvo menn að auki eftir eðli máls til þess að fjalla um kæruna ásamt formanni og fulltrúum kennarafélaganna. Í umboði háskólaráðs skipar rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns nefndarinnar.

Skipunartími formanns og fulltrúa kennarafélaganna er þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna tekur einungis til fyrirliggjandi máls.

[Hamli réttmæt forföll því að nefndarmaður geti tekið þátt í störfum siðanefndar, skipar rektor í umboði háskólaráðs þá annan nefndarmann í fjarveru hans.]*

Rektor skipar nefndinni ritara úr hópi starfsmanna Háskólans.

3. gr. Hæfi nefndarmanna.

Nefndarmaður má ekki fjalla um kæru ef hann uppfyllir ekki hæfisskilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skipar rektor í umboði háskólaráðs þá annan nefndarmann í hans stað.

[Verði ágreiningur um sérstakt hæfi nefndarmanns og sker þá siðanefndin úr, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Ágreiningi um almennt hæfi nefndarmanns verður skotið til háskólaráðs.]*

4. gr. Málsgrundvöllur.

[Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún]* hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands. Nefndin vísar frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá getur nefndin vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.

[5. gr.] Tilkynning.

Berist siðanefnd kæra sem ekki verður vísað frá þegar í stað tilkynnir nefndin þeim sem kæran beinist að um hana og veitir honum frest til þess að lýsa viðhorfum sínum til hennar.]*

[6. gr.]* Gagnaöflun.

Siðanefnd aflar nauðsynlegra gagna til þess að hún geti úrskurðað um kæruefnið. [Gætt skal að trúnaði og nafnleynd ef við á, sbr. 1. gr.]* Nefndin skal eiga óheftan aðgang að gögnum sem kæruna varða í skjalasafni Háskóla Íslands og skjalasöfnum deilda. Viðræður nefndarmanna við þá sem máli tengjast skulu skjalfestar eftir því sem við verður komið. Sé gerð hljóðupptaka af viðtali skal það gert með samþykki viðmælenda. Það sem skráð er eftir viðmælanda skal borið undir hann til samþykkis.

[Þeim sem kemur fyrir siðanefnd og kæra beinist að er heimilt að hafa með sér aðstoðarmann á sinn kostnað.]*

Um aðgang að upplýsingum sem nefndin aflar og niðurstöðum mála gilda ákvæði upplýsingalaga.

[7. gr.]* Andmælaréttur.

Áður en siðanefnd kemst að niðurstöðu varðandi kæru skal málsaðili eiga þess kost að tjá sig um framkomna kæru, öll gögn sem aflað hefur verið og afstöðu annarra málsaðila ef þeim er til að dreifa.

[8. gr.] Sáttaumleitan.

Eftir athugun á málsgrundvelli, sbr. 4. gr., getur siðanefnd hvenær sem er við meðferð máls kannað vilja málsaðila til að ljúka málinu með sátt. Ákveði aðilar að ljúka málinu með sátt, skal siðanefndin, eftir því sem við verður komið, styðja málsaðila í því að ná sáttum.]*

[9. gr.]* Niðurstaða.

Niðurstaða siðanefndar í kærumáli skal vera rökstudd og afdráttarlaus um það hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Háskóla Íslands. Geti nefndin ekki komist að skýrri niðurstöðu vegna skorts á upplýsingum um málsatvik, skal kærunni vísað frá. Geti nefndarmenn ekki orðið sammála um það hvort um brot sé að ræða, ræðst niðurstaðan af afstöðu þeirra tveggja nefndarmanna sem mynda meirihluta. [...]*

Siðanefnd mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum sem hún kemst að niðurstöðu um, en skal taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort telja megi að um endurtekið brot sé að ræða.

[10. gr.]* Birting niðurstöðu.

Niðurstaða siðanefndar í kærumáli er skrifleg og tilkynnt málsaðilum bréflega. Niðurstaðan er einnig send rektor til vitundar og varðveislu.

Að svo miklu leyti sem niðurstaða nefndarinnar byggist á túlkun siðareglna, skal nefndin búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta á þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál.

[11. gr.]* Viðbrögð við niðurstöðu nefndarinnar.

Niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum er endanleg og verður henni ekki áfrýjað. Ef niðurstaða nefndarinnar bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skal nefndin vekja athygli rektors á því.

Siðanefnd er ennfremur heimilt að benda rektor á annmarka á reglum sem gilda um Háskóla Íslands.

*Breytt með samþykkt háskólaráðs 13. október 2011.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is