Skip to main content

Vill bæta lífsgæði fólks sem hrýtur

Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Læknadeild

„Þekkt er að þeir sem lýsa hrotum og vægum öndunartruflunum, en greinast ekki með kæfisvefn, eru oftar syfjaðri og með höfuðverk en aðrir,“ segir Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Læknadeild, en hún vinnur nú að því að staðla aðferðir til að mæla hrotur og öndunarerfiði í svefni. Ætlunin er að rannsaka mikilvægi hrota og öndunarerfiðis með hliðsjón af áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og öðrum neikvæðum heilsufarsþáttum.

„Börn sem lýsa miklum hrotum fá sömu neikvæðu afleiðingar m.t.t. til hegðunarvandamála og skólaframmistöðu og börn með kæfisvefn. Því getur þessi rannsókn orðið til þess að greining svefnháðra öndunartruflana verði bætt og þar með líðan fjölmargra einstaklinga í samfélaginu.“
 

Erna Sif Arnardóttir

„Rannsóknin gæti leitt til þess að ákveðinn hluti einstaklinga sem hrjóta, en eru ekki með hefðbundinn kæfisvefn, fái meðferð á grundvelli klínískra afleiðinga. Hugsanlega geti það dregið úr hættu á að þessir einstaklingar fái neikvæðar afleiðingar af svefnvandamálum sínum á borð dagsyfju, höfuðverk og möguleg áhrif á hjarta- og æðakerfi – en það er enn þá óljóst.“

Erna Sif Arnardóttir

Erna Sif hefur unnið við svefnrannsóknir, bæði við mælingar á sjúklingum og við vísindarannsóknir, í meira en áratug. Henni hefur lengi fundist að unnt væri að bæta aðferðafræðina sem notuð er á alþjóðavísu við að greina einstaklinga með svefnháðar öndunartruflanir.

„Alvarleiki svefnháðra öndunartruflana er nú eingöngu mældur með talningu á fjölda öndunarstoppa á klukkustund. Sú aðferðafræði nær einungis til þeirra sem greinast með kæfisvefn en ekki til þess stóra hóps sem er á gráu svæði. Þar eru einstaklingar sem mælast með miklar hrotur og aukið öndunarerfiði, en lítinn fjölda öndunarhléa. Þessir einstaklingar þurfa því mögulega meðferð vegna slíkra kvilla. Einnig eru aðrir sem greinast með kæfisvefn samkvæmt hefðbundnum greiningaraðferðum en eru mögulega með lítið öndunarerfiði. Við sjáum þetta m.a. hjá öldruðum einstaklingum. Hugsanlega þurfa þeir því ekki meðferð við kæfisvefni ef einkenni eru lítil.“

Erna Sif segir að rannsóknin gæti leitt til þess að ákveðinn hluti einstaklinga sem hrjóta, en eru ekki með hefðbundinn kæfisvefn, fái meðferð á grundvelli klínískra afleiðinga. Hugsanlega geti það dregið úr hættu á að þessir einstaklingar fái neikvæðar afleiðingar af svefnvandamálum sínum á borð dagsyfju, höfuðverk og möguleg áhrif á hjarta- og æðakerfi – en það er enn þá óljóst.