Viðbótarmeðferðir á meðgöngu og í fæðingu | Háskóli Íslands Skip to main content

Viðbótarmeðferðir á meðgöngu og í fæðingu

Margrét Unnur Sigtryggsdóttir, MS frá Hjúkrunarfræðideild 

Að ganga með og fæða barn er mikilvæg og margslungin reynsla. „Meðganga felur í sér margþættar breytingar á andlegri og líkamlegri líðan kvenna. Upplifun af meðgöngu er mismunandi en umræða um náttúrulegar aðferðir og sem minnst tæknivædd inngrip í barneignarferlið er áberandi hjá stórum hópi barnshafandi kvenna,“ segir Margrét Unnur Sigtryggsdóttir, sem lauk meistaraprófi í ljósmóðurfræðum vorið 2013. Markmið Margrétar Unnar í meistararitgerðinni var að hanna spurningalista til að varpa ljósi á notkun viðbótarmeðferða á meðgöngu og í fæðingu. Jafnframt að sýna hvar konur fá upplýsingar, hvatningu og ráðleggingar um það sem þeim stendur til boða.

Margrét Unnur Sigtryggsdóttir

„Meðganga felur í sér margþættar breytingar á andlegri og líkamlegri líðan kvenna. Upplifun af meðgöngu er mismunandi en umræða um náttúrulegar aðferðir og sem minnst tæknivædd inngrip í barneignarferlið er áberandi hjá stórum hópi barnshafandi kvenna.“

Margrét Unnur Sigtryggsdóttir

„Samkvæmt erlendum rannsóknum sækir meirihluti barnshafandi kvenna í óhefðbundnar lækningar til að fyrirbyggja eða milda meðgöngutengda kvilla,“ segir Margrét Unnur. Konur fá nálastungur, fara í jóga, nudd og ilmkjarnaolíumeðferðir til að kljást við fylgikvilla eins og ógleði, kvíða, þunglyndi, bjúg og verki.

Margrét er menntaður nuddari og hefur alltaf haft mikinn áhuga á öllum óhefðbundnum lækningum. Hún segir að nudd fyrir barnshafandi konur dragi úr streitu, veiti slökun, lækki blóðþrýsting og bæti svefn.

Niðurstöður Margrétar sýna að algengast var að ljósmæður hvettu konurnar til að nota viðbótarmeðferðir og þær veittu oftast fræðslu um þær. „Það er mikilvægt að þekking og viðhorf ljósmæðra þróist í takt við breyttar áherslur á meðgöngu og í fæðingu,“ segir Margrét Unnur.

Þessi þróun á sér einnig stað erlendis en þar leita konur náttúrulegra leiða til að takast á við fylgikvilla meðgöngunnar. „Ég vonast til þess að fá tækifæri til að fræða Íslendinga um öruggar viðbótarmeðferðir á meðgöngu. Með því móti geta þær nýst í forvarnarskyni og aukið lífsgæði barnshafandi kvenna,“ segir Margrét Unnur.

Leiðbeinendur: Helga Gottfreðsdóttir og Þóra Jenný Gunnarsdóttir, dósentar í Hjúkrunarfræðideild.

Netspjall