Útreiðar gegn mjóbaksverkjum? | Háskóli Íslands Skip to main content

Útreiðar gegn mjóbaksverkjum?

Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir, BS frá Læknadeild 

„Ég hef verið í hestamennsku frá því ég var barn og í gegnum tíðina oft heyrt hestamenn tala um að það besta sem þeir geri þegar þeir eru með bakverki sé að fara á hestbak. Þeir töluðu einnig um að bakið væri í raun aldrei betra en þegar þeir riðu mikið út. Vegna þessa fékk ég áhuga á því að skoða málið nánar í námi mínu í sjúkraþjálfun,“ segir Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir sem brautskráðist frá Háskóla Íslands vorið 2016.

„Ég sendi út rafræna spurningakönnun á félagsmenn í hestamannafélaginu Skugga í Borgarnesi og í ljós kom að 58% svarenda höfðu fundið fyrir óþægindum á síðustu sjö dögum en 94,2% höfðu fundið fyrir óþægindum í neðri hluta baks einhvern tímann á ævinni. Stór hluti, eða 68,1%, töldu það minnka óþægindi í neðri hluta baks að vera á hestbaki og 75,5% töldu óþægindin minnka yfir þau tímabil sem útreiðar voru stundaðar reglulega,“ segir hún.

Guðríður Hlíf kannaði sérstaklega hvort munur væri á hestamönnum sem riðu út og þeim sem ekki gerðu það. „Af þeim sem riðu út höfðu 42,3% fundið fyrir óþægindum í neðri hluta baks en 50% meðal þeirra sem ekki riðu út. Gögn frá tveimur tímabilum sýndu að 31,6% þeirra sem stunduðu útreiðar fundu fyrir óþægindum í mjóbaki en 42,1% á tímabilinu sem þeir stunduðu ekki útreiðar. Engin marktæk breyting varð því á milli tímabila,“ segir Guðríður.

Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir

„Það er rík ástæða til að rannsaka frekar samspil manns og hests í tengslum við forvarnir og meðferð við mjóbaksverkjum. Heilbrigðisstarfsfólk, sér í lagi sjúkraþjálfarar, geta til að mynda nýtt sér niðurstöður slíkra rannsókna til þess að leiðbeina einstaklingum með mjóbaksverki.

Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir

Hún bendir þó á að alhæfingargildi rannsóknarinnar sé ekki mikið þar sem rannsóknin var lítil og takmarkanir hennar þó nokkrar. „Niðurstöður benda þó til þess að mjóbaksverkir séu algengir meðal hestamanna en þrátt fyrir það telja flestir útreiðar minnka mjóbaksverki,“ segir hún.

„Það er rík ástæða til að rannsaka frekar samspil manns og hests í tengslum við forvarnir og meðferð við mjóbaksverkjum. Heilbrigðisstarfsfólk, sér í lagi sjúkraþjálfarar, geta til að mynda nýtt sér niðurstöður slíkra rannsókna til þess að leiðbeina einstaklingum með mjóbaksverki. Á til dæmis að hvetja hestamenn með mjóbaksverki til þess að stunda útreiðar eða ekki og er eitthvað í tengslum við hestamennsku sem ber að forðast, s.s. járningar? Ef útreiðar reynast hafa jákvæð áhrif á mjóbaksverki getur áhugafólk um hesta nýtt sér útreiðar í meðferðar- og jafnvel í forvarnarskyni við mjóbaksverkjum,“ segir Guðríður Hlíf rétt áður en hún skellir sér í hnakkinn og þeysir af stað.