Skip to main content

Úrgangur að orku

Rúnar Unnþórsson prófessor og Christiaan Richter dósent, báðir við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

„Við viljum innleiða og þróa verkfræðilega lausn sem snýst um að lágmarka lífrænan úrgang sem fer í urðun eða landfyllingar hér á landi. Í upphafi erum við að vinna með litað eða meðhöndlað timbur. Tæknin sem við styðjumst við nefnist gösun. Allt lífrænt hráefni er hægt að gasa og er það gert með því að hita hráefnið í yfir 700 gráður á celcíus. Hráefnið er ekki brennt, einungis hitað. Við gösunina umbreytist hráefnið að mestu yfir í lofttegundir og gufar upp. Loftblandan sem myndast er þekkt undir nafninu syngas en hana má nýta á ýmsan veg.“

Þetta segir vísindamaðurinn Rúnar Unnþórsson, sem einnig er prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Hann vinnur nú að nýrri rannsókn ásamt Christiaan Petrus Richter, dósent í efnaverkfræði, sem miðar að því að vinna orku úr lífrænum úrgangi. Stöðugt strangari reglugerðir hér og erlendis um urðun lífræns úrgangs gera það að verkum að nauðsynlegt er að finna nýjar lausnir við að nýta þennan úrgang. Rúnar segir að öll sorpurðunarfyrirtæki á Íslandi hafi t.d. skuldbundið sig til að hætta urðun lífræns úrgangs fyrir árið 2020.
 

Rúnar Unnþórsson og Christiaan Richter

„Við viljum innleiða og þróa verkfræðilega lausn sem snýst um að lágmarka lífrænan úrgang sem fer í urðun eða landfyllingar hér á landi... “

Rúnar Unnþórsson og Christiaan Richter

„Ein einfaldasta nýtingin á syngasinu er að brenna það,“ segir Christiaan. „Í verkefninu brennum við það í bílvél sem knýr rafal. Við nýtum einnig hitann frá vélinni til að hita upp vatn og fáum því bæði rafmagn og heitt vatn úr úrganginum. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að sýna fram á og staðfesta að lausnin sem við erum að þróa myndar hverfandi magn krabbameinsvaldandi efnanna díoxíns og furans í útblæstrinum.“

Rúnar segir að sorpbrennslum á Íslandi hafi verið lokað fyrir nokkrum árum vegna mengunar af völdum díoxíns. „Þessar sorpbrennslur voru staðsettar á svokölluðum köldum svæðum þar sem enginn eða afar lítill jarðvarmi er til húshitunar. Þetta er á stöðum eins og í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og Ísafirði. Sorpbrennslurnar voru nýttar til að hita upp vatn. Í dag þarf að aka langar vegalengdir með ruslið til urðunar eða til brennslu. Það er því algjör nauðsyn að finna lausn á þessu vandamáli, bæði hér og ekki síður í litlum samfélögum erlendis. Við getum t.d. nefnt sem dæmi að víða í Afríku er sorp brennt undir berum himni þar sem fólk hefst við.“

Christiaan segir að niðurstöður séu ekki enn komnar úr rannsókninni, „en við væntum þess að lausnin okkar muni hafa hverfandi magn krabbameinsvaldandi efnanna díoxíns og furans í útblæstrinum. Með þessari lausn verður þannig hægt að nýta lífrænan úrgang þar sem hann fellur til án þess að þessi krabbameinsvaldandi efni losni út í andrúmsloftið. Auk þess veldur gösunartæknin minni loftmengun en urðun og mengar ekki grunnvatn.“

Rúnar tekur undir þetta og segir að verkfræðilegar rannsóknir, eins og þær sem þeir félagarnir stunda, skipti miklu máli fyrir framtíðina. „Það er vegna þess að verkfræðin snýr að þróun og hönnun mikilvægra lausna fyrir mannkynið.“