Skip to main content

Upplifun unglinga á einhverfurófi

Helga María Hallgrímsdóttir, M.Ed. frá Menntavísindasviði

„Mikið hefur verið fjallað um einhverfurófið með tilliti til kennsluaðferða og ýmissa sannreyndra aðferða og fyrir liggur talsvert af rannsóknum á því sviði. Lítið hefur hins vegar verið spurt um upplifun þeirra sem greindir hafa verið á einhverfurófinu og eru sérfræðingar um líf sitt og reynslu.“ Þetta segir Helga María Hallgrímsdóttir sem hefur í meistaraprófsverkefni sínu kannað hvernig unglingar á einhverfurófi lýsa félagslegum samskiptum sínum í skóla og tómstundastarfi. Helga María talaði einnig við foreldra þessara unglinga í rannsókninni.

Læknisfræðileg skýring á einhverfu er talin vera þroskaröskun sem lýsir sér meðal annars í erfiðleikum í félagslegum samskiptum og er talið að hún orsakist af frávikum í þroska taugakerfisins. Einhverfa er algengari en margir ætla en samkvæmt upplýsingum frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins fer algengi yfir eitt prósent ef allir með hamlandi einkenni einhverfu eru taldir með. Samkvæmt gögnum frá sama aðila sýna rannsóknir hér á landi verulega aukna tíðni greininga, ekki síst í yngstu aldurshópunum. Miklu skiptir því að kynna sér hvernig ungmenni, sem hafa greinst á einhverfurófinu, upplifa sínar eigin aðstæður.

Helga María Hallgrímsdóttir

„Lítið hefur hins vegar verið spurt um upplifun þeirra sem greindir hafa verið á einhverfurófinu og eru sérfræðingar um líf sitt og reynslu.“

Helga María Hallgrímsdóttir

„Tilgangur rannsóknar minnar var að varpa ljósi á það hvernig unglingar á einhverfurófi lýsa upplifun sinni af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Í störfum mínum innan grunnskólans hef ég orðið þess áskynja að nemendur á einhverfurófi eiga oft erfitt uppdráttar félagslega. Skólasamfélög bjóða engu að síður möguleika til að gera heilmargt þegar kemur að því að efla ólíka einstaklinga og hópa félagslega. Það þarf hins vegar að koma auga á þessi tækifæri og nýta þau,“ segir Helga María.

Að hennar sögn má draga þá ályktun af niðurstöðum verkefnisins að unglingar á einhverfurófi spegli sig gjarnan í samskiptum við aðra til að þóknast öðrum og falla betur inn í samfélagið. Þeir eigi vini samkvæmt eigin skilgreiningu en upplifa þrátt fyrir það erfiðleika í samskiptum við jafnaldra. „Samskipti þeirra við jafnaldra utan skóla fara að mestu leyti fram í gegnum samfélagsmiðla og á netheimur stóran þátt í lífi þeirra. Unglingunum reynist auðveldara að eiga samskipti við fullorðna en jafnaldra. Foreldrar unglinganna meta félagslega stöðu þeirra hins vegar verri en unglingarnir gera sjálfir. Foreldrar telja mikilvægt að starfsfólk skóla fái fræðslu um einhverfurófið og leggi sig fram um að kynnast einstaklingunum og sérkennum þeirra. Þátttakendur í rannsókninni kölluðu eftir því að skólarnir mættu nemendum betur á forsendum hvers og eins.“

Rannsóknir á aðstæðum einstaklinga á einhverfurófinu skipta gríðarlegu máli því með þeim aukast líkur á að unnt sé að bæta líðan þeirra. „Niðurstöður mínar gefa skýrar vísbendingar um að leggja þurfi meiri áherslu á félagslega þátttöku, samskiptafærni og myndun vinatengsla í skólastarfi til að ná betur til þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti félagslega. Rannsókn eins og sú sem ég hef unnið veitir nýja þekkingu. Það er siðferðileg skylda okkar að nýta þekkinguna til að bæta samfélagið og umheiminn.“

Leiðbeinandi: Kristín Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið.