Skip to main content

Upplifun innflytjendamæðra af háskóla

Cynthia Trililani, doktorsnemi við Menntavísindasvið 

„Í rannsókninni minni beini ég sjónum að því hvernig mæður, sem eru innflytjendur á Íslandi, upplifa háskólamenntun hér. Þrátt fyrir að fjölmargar rannsóknir sýni fram á ýmsar áskoranir sem mæður mæta almennt í einkalífi og í námi, er hópurinn sem ég kalla innflytjendamæður í háskólanámi ósýnilegur og lítt rannsakaður. Þessar konur mæta að öllum líkindum fjölþættum áskorunum vegna stöðu sinnar sem innflytjendur.“ Þetta segir Cynthia Trililani sem stundar nú doktorsnám í menntavísindum.

Cynthia bendir á að til þess að ná utan um margbreytileika sjálfsvitundar mæðranna og skýra upplifun þeirra og reynslu í náminu nægir ekki að skoða bara kyngervi svo að dæmi sé tekið. Félagsleg staða þeirra og upplifun markist einnig af kynþætti, tungumáli og efnahagslegri stöðu. Það þurfi að skoða samtvinnun eða skörun allra breytanna.

Cynthia Trililani

„Verkefnið er mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu útlendinga innan íslenskra háskóla og framlag til rannsókna á ósýnilegum minnihlutahópum í háskólum hér,“

Cynthia Trililani

Cynthia vonast til að með rannsókninni nái hún að þróa samtvinnun sem fræðilegt sjónarhorn og rannsóknaraðferð. „Verkefnið er jafnframt mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu útlendinga innan íslenskra háskóla og framlag til rannsókna á ósýnilegum minnihlutahópum í háskólum hér,“ segir Cynthia.

„Vonandi getur þessi rannsókn einnig haft áhrif á umræðu um hvernig hægt er að auðvelda innflytjendamæðrum félagslega aðlögun í námi. Rannsóknin gæti einnig stutt við smíði á viðmiðunarreglum við þróun námsleiða á háskólastigi og þegar stefna er sett til stuðnings erlendum nemendum í háskólum.“

Leiðbeinandi: Annadís Gréta Rudolfsdóttir, dósent við Menntavísindasvið.