Skip to main content

Unga fólkið og fjölmenningin

Gunnar J. Gunnarsson, prófessor við Menntavísindasvið

Umræða um trúmál og trúarbragðafræðslu, þar á meðal kirkjuheimsóknir skólabarna, hefur á síðustu árum hitnað töluvert í íslensku samfélagi. Tengist það meðal annars fjölgun í hópi trúlausra í landinu en einnig auknum trúarlegum fjölbreytileika í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er orðið. En hvað finnst börnunum sjálfum um trúna og lífið?

Gunnar J. Gunnnarsson, prófessor í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu, hefur í rannsóknum sínum bæði skoðað kennslu í þessu fagi en ekki síður lífsviðhorf ungra Íslendinga. Rannsóknirnar spanna langan tíma. „Um er að ræða þrjár meginrannsóknir. Í fyrsta lagi réðst ég í rannsókn á viðhorfum grunnskólabarna á árunum 1998-1999, í öðru lagi rannsókn á tilvistartúlkun unglinga á árunum 2003-2004 og loks rannsókn á lífsviðhorfum og gildismati ungmenna í framhaldsskólum 2011-2015. Sú rannsókn hefur verið unnin í samstarfi við þrjá samstarfsfélaga mína á Menntavísindasviði, þau Hönnu Ragnarsdóttur, Gunnar Finnbogason og Höllu Jónsdóttur. Í þeirri rannsókn er sérstaklega horft til vaxandi menningarlegs og trúarlegs margbreytileika í íslensku samfélagi,“ segir Gunnar.

Kveikjan að rannsóknunum er að sögn Gunnars áhugi hans á að vita meira um hvernig börn og ungmenni hugsa um líf sitt og tilvist og hvernig nýta megi þá þekkingu við undirbúning og skipulag trúarbragðakennslu í skólum en kveðið er á um hana í aðalnámskrá grunnskóla.

„Það sem meðal annars vekur athygli er að unga fólkið virðist jákvætt í garð vaxandi margbreytileika og það virðist ekki valda því erfiðleikum að eiga vini af ólíkum uppruna eða með ólík trúar- eða lífsviðhorf.“

Gunnar J. Gunnarsson

Niðurstöður sínar hafa Gunnar og samstarfsfólk birt í nokkrum vísindagreinum. „Það sem meðal annars vekur athygli er að unga fólkið virðist jákvætt í garð vaxandi margbreytileika og það virðist ekki valda því erfiðleikum að eiga vini af ólíkum uppruna eða með ólík trúar- eða lífsviðhorf,“ segir Gunnar.

Spurður um gildi rannsóknanna segir Gunnar það vera margvíslegt fyrir skólastarf og kennslu um trúarbrögð og lífsviðhorf. „Þá ættu þær að vera hvatning til að efla kennslu á þessu sviði í framhaldsskólum, en hún er fremur lítil. Hæfni fólks til að lifa í sátt í fjölmenningarsamfélagi er mikilvæg og þar koma trú og lífsviðhorf meðal annars við sögu.“