Þýðing þýðinganna | Háskóli Íslands Skip to main content

Þýðing þýðinganna

Ástráður Eysteinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild

„Við blasir að hugtak höfundarins, nafn hans og skilgreining, er notað til að halda utan um lykilþætti í menningarlegu og sögulegu vægi bókmennta á hverjum stað. En höfundar eru líka tengiliðir á milli tungumála og menningarsvæða og í þeim tengslum býr mikið gildi sem vert er að veita aukna fræðilega athygli. Þessi tengsl birtast með gleggstum hætti í þýðingum en þær eru menningar- og sköpunarvettvangur sem enn er lítt kannaður í íslensku samhengi.“

Svona mælir Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði, sem nú rannsakar þætti nokkurra erlendra rithöfunda í íslensku bókmenntalífi en hann horfir á þýðingar á verkum þessara höfunda og viðtökurnar á þeim. „Jafnframt er hugað með almennum hætti að samspili erlendra og frumsamdra bókmennta,“ segir Ástráður sem sjálfur hefur talsvert þýtt auk þess að hafa lengi fengist við rannsóknir á þýðingum. Hann hefur t.d. þýtt drjúgan part af höfundarverki Franz Kafka í félagi við Eystein Þorvaldsson.

Ástráður Eysteinsson

„Höfundar eru líka tengiliðir á milli tungumála og menningarsvæða og í þeim tengslum býr mikið gildi sem vert er að veita aukna fræðilega athygli.“

Ástráður Eysteinsson

„Bók mín Tvímæli fjallar um þýðingafræði og bókmenntir og nýlega kom út bókin Orðaskil þar sem ég fjalla um þýðingar einstakra verka en líka um vægi þýðinga í bókmenntasögunni. Ég hef iðulega velt fyrir mér vistaskiptum rithöfunda og langar að kanna sérstaklega hvernig hlutverk þeirra og staða breytist þegar þeir fara milli menningarheima, þótt þeir taki auðvitað heilmikið með sér á því ferðalagi.“

Ástráður hefur fjallað talsvert um Charles Dickens í íslenskum bókmenntaheimi og bent í því sambandi á að staða hans þar sé sérstök og áhugaverð.

„Enn hefur engin skáldsagna hans birst óstytt á íslensku og sumar aldrei verið þýddar – en samt er Dickens mikilvægur höfundur í íslensku samhengi,“ segir Ástráður sem áformar að ljúka upp leyndardómum þýðinganna í rannsókninni, eða öllu heldur þýðingu þýðinganna.