Skip to main content

Þróa gerjaðar afurðir úr íslenskri lúpínu

Lúpínan vex í gríðarlegu magni hér á landi en þrátt fyrir það er lítill hluti hennar nýttur. Erlendis hefur lúpínan mikið verið notuð til manneldis og í dýrafóður þar sem hún er prótein- og orkurík án þess að vera há í sterkju. Hún er því talin henta einstaklega vel fyrir jórturdýr ásamt svínum og fuglum. Íslenska lúpínan er bitrari en erlend, yrki sætari og hafa dýr fúlsað við henni sökum þess.

Markmið rannsóknar, sem unnin er nú í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna, er að finna leiðir til þess að nýta íslenska lúpínu bæði til manneldis og í dýrafóður fyrir bændur. Verkefnið er framlenging af doktorsverkefni Brögu Stefaný Mileris, sem hóf haustið 2019 að vinna að grunngreiningu á innihaldsefnum lúpínunnar eftir plöntupörtum.

Björn Viðar Aðalbjörnsson, lektor í Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, segir að aukin nýting lúpínunnar hérlendis muni hafa í för með sér umhverfisverndandi áhrif þar sem dýrafóður sé í dag að stærstum hluta innflutt til landsins. Nýtingin sé að auki gríðarleg verðmætasköpun þar sem lúpínan vex auðveldlega í íslensku loftslagi.

„Við stefnum að því að gerja lúpínuna með mismunandi örverustofnum og kanna áhrif þess á næringarinnihald og biturefni. Við munum framkvæma skynmat fyrir vörur á neytendamarkaði og lystugleikakannanir fyrir búfénað í samvinnu við bændur, á því hvernig dýrin taka lúpínunni eftir mismunandi vinnslu,“ segir Björn Viðar.

Markmið rannsóknar, sem unnin er nú í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna, er að finna leiðir til þess að nýta íslenska lúpínu, bæði til manneldis og í dýrafóður fyrir bændur. Verkefnið er framlenging af doktorsverkefni Brögu Stefaný Mileris, sem hóf haustið 2019 að vinna að grunngreiningu á innihaldsefnum lúpínunnar eftir plöntupörtum. Frá vinstri: Björn Viðar Aðalbjörnsson, Axel Sigurðsson, Braga Stefaný Mileris og Kristín Elísabet Halldórsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Áhuginn kviknaði út frá því hve pólitísk lúpínan er en það virðast vera tvær fylkingar í kringum lúpínu. Annað hvort virðist fólk elska hana eða hata hana og við viljum með þessu verkefni koma með nýjan vinkil á nálgun lúpínunnar þar sem nýting á lúpínu hefur hingað til takmarkast við uppgræðslu örfoka lands eða beit fyrir sauðfé. Það er hægt að nýta hlutina ef viljinn er fyrir hendi,“ segja þau.

Alaskalúpínan fer ekki fram hjá neinum sem keyrir um Ísland og margir velta henni lítið fyrir sér, svo lítið að fátt er um rannsóknir og gögn um hana hérlendis. „Við erum því að mörgu leyti að finna upp hjólið með hvaða möguleika þessi planta hefur til manneldis. Erlendis eru önnur yrki lúpínu mikið notuð til mann- og dýraeldis og metanframleiðslu þar sem erlendu yrkin eru sum hver prótein-, trefja- og sykurrík. Lúpínan hér á landi er ókönnuð auðlind og því er takmarkað vitað um efnainnihald hennar, lífvirk efni o.fl. en hvíta lúpínan (lupinus albus) og bláa lúpínan (lupinus angustifolius) hafa verið meira rannsakaðar. Erlendar rannsóknir benda til þess að lúpínan innihaldi töluvert magn af lífvirkum efnum. Meðal annars finnast í henni efni með líf- og andoxunarvirkni. Talið er að lúpínan hafi margvísleg heilsufarsleg áhrif.“

Lúpínunni verður safnað saman fjórum sinnum í sumar og hráefninu skipt í plöntuparta. Í framhaldi verða hráefnin hreinsuð og geymd í frysti fram að notkun. Þar næst verður lúpínan sett í gerjun með mismunandi aðferðum og vörur þróaðar til mann- eða dýraeldis. Næringarinnihaldsmælingar og biturefnamælingar verða framkvæmdar fyrir og eftir gerjun og sömuleiðis á plöntupörtum á öllum fjórum vaxtarskeiðum. Einnig verður heildarmagn phenóla í hverjum plöntuparti mælt eftir vaxtarskeiðum en phenól eru lífvirk efni. Talið er að lúpínan innihaldi mikið af lífvirkum efnum og eitt þeirra, spartein, hefur verið notað sem lyf. Verkefnið hefur í för með sér, að sögn þeirra Axels og Kristínar, aukna þekkingu á efnainnihaldi og lífvirkum efnum lúpínunnar sem opni þar með á möguleika til vöruþróunar og frekari nýtingar.

Aðspurð um það hvers kyns vörur þau hafi í huga að þróa vilja þau ekki gefa of mikið upp. „Vegna framtíðaráætlana með afurðirnar kjósum við að láta sem fæst orð falla en getum ábyrgst að fyrstu kannanir lofa mjög áhugaverðum niðurstöðum sem við ætlum okkur lengra með. Það má segja að verkefnið sé rétt að byrja.“