Skip to main content

Þörf á meiri umræðu um „bláa gullið“

Bára Huld Beck, MA frá Stjórnmálafræðideild

„Vatn er ein mikilvægasta auðlind jarðarinnar því án þess er ekkert líf. Menn, dýr og plöntur treysta algjörlega á vatnið til lífsviðurværis og þess vegna fannst mér brýnt að minna á þessa mikilvægu auðlind sem stundum er nefnd „bláa gullið“ og vekja umræðu um hana,“ segir Bára Huld Beck sem skoðaði stöðu og nýtingu vatns hér á landi í lokaverkefni sínu til meistaraprófs í blaða- og fréttamennsku. Afraksturinn var m.a. margmiðlunarverkefnið „Bláa gullið“ sem birtist í fjölmiðlinum Kjarnanum.

„Kveikjan að verkefninu voru ferðalög mín til Indlands árin 2007 og 2009. Þar upplifði ég allt annan veruleika en ég var vön þar sem vatn var talið mikilvægara en allt annað og heilagt í þokkabót. Þar sem mér var tamt að taka vatninu sem gefnu þá voru þetta mikil viðbrigði. Mér hefur síðan þá verið mjög umhugað um þessa vanmetnu auðlind,“ segir Bára Huld.
 

Bára Huld Beck

„Vatn er ein mikilvægasta auðlind jarðarinnar því án þess er ekkert líf. Menn, dýr og plöntur treysta algjörlega á vatnið til lífsviðurværis og þess vegna fannst mér brýnt að minna á þessa mikilvægu auðlind sem stundum er nefnd „bláa gullið“ og vekja umræðu um hana,“

Bára Huld Beck

Hún bendir á að Íslendingar séu mjög heppnir enda úrkoma í formi rigningar og snjókomu mikil hér á landi og það tryggi landsmönnum aðgang að góðu vatni. „En vegna þess að aðgengið er svo gott hefur umræðan að mínu mati ekki verið jafnmikil um vatn og vatnsnotkun á Íslandi og þörf er á,“ bætir hún við.

Í margmiðlunarverkefninu fléttaði hún saman texta, myndum og myndbrotum þar sem ljósi er varpað á vatnsnotkun og -mengun á Íslandi og rætt við bæði sérfræðinga á sviði umhverfismála og stjórnmálamenn. Undir smásjánni var staða vatns á Íslandi, umhverfisverndarsjónarmið sem tengjast vatninu og lög- og siðfræðilegir vinklar tengdir vatnsnotkun. „Helstu áskoranir verkefnisins lágu í framsetningunni. Ég ákvað að setja verkefnið fram sem margmiðlunarverkefni en það hafði aldrei verið gert áður á Íslandi með þessu móti. Ég vann verkefnið með vefstjóra Kjarnans þar sem ég birti efnið í byrjun maí 2017. Vegna skorts á íslenskum fyrirmyndum þurfti ég að setja fram mína eigin sýn á hvernig verkefnið ætti að líta út,“ segir Bára Huld um lokaverkefnið.

Þótt greining Báru Huldar leiði í ljós að staða vatns sé almennt góð á Íslandi er engu að síður víða pottur brotinn. „Það á sérstaklega við um mengun vatns sem tengist frárennslismálum á Íslandi. Íslendingum ber því að huga betur að þessum málum og endurhugsa stefnu sína um nýtingu og vernd vatns.“

Leiðbeinandi: Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild.