Skip to main content

Stjórnarskrár á Norðurlöndum

Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild

Hvað eiga stjórnarskrár og stjórnskipunarkerfi norrænu ríkjanna sameiginlegt í sögulegu, stjórnmálalegu og lagalegu samhengi og hvað greinir þau að? Þessara spurninga spyrja Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, og norrænir samstarfsfélagar hennar í viðamiklu rannsóknarverkefni sem staðið hefur yfir undanfarin misseri.

„Rannsóknin sprettur af samstarfi fræðimanna í stjórnskipunarrétti á Norðurlöndunum. Við höfum reglulega skipulagt norrænar ráðstefnur um valin viðfangsefni úr stjórnskipun ríkjanna. Margar athyglisverðar niðurstöður hafa komið fram sem kveiktu áhugann á að gera efninu skil með heildstæðum hætti,“ segir Björg um upphaf samstarfsins en að því koma auk hennar fræðimenn frá háskólunum í Kaupmannahöfn, Ósló, Uppsölum, Helsinki og Åbo.

Við Íslendingar berum okkur oft saman við hinar norrænu þjóðirnar í hinum ýmsu málaflokkum og í þessu samhengi bendir Björg á að oft sé litið til Norðurlandanna sem ríkja með áþekka stjórnskipunarhefð. „Okkur fannst áhugavert að kanna það nánar, sérstaklega með hliðsjón af því að ríkin hafa farið í ólíkar áttir í Evrópusamvinnu þar sem þrjú þeirra, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, eru aðilar að Evrópusambandinu en Ísland og Noregur standa utan þess sem aðilar að EES-samstarfinu,“ bendir Björg á.

Björg Thorarensen

Við Íslendingar berum okkur oft saman við hinar norrænu þjóðirnar í hinum ýmsu málaflokkum og í þessu samhengi bendir Björg á að oft sé litið til Norðurlandanna sem ríkja með áþekka stjórnskipunarhefð.

Björg Thorarensen

Frumniðurstöður rannsóknarinnar sýna að stjórnskipun á Norðurlöndum hefur breyst talsvert síðustu ár, einkum í ESB-ríkjunum. „Þá hafa breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskránna (nema þeirrar dönsku) haft umtalsverð áhrif í samspili við vaxandi hlutverk Mannréttindasáttmála og Mannréttindadómstóls Evrópu. Vegna krafna mannréttindasáttmálans um að menn eigi rétt á úrlausn dómstóla um hvort réttindi þeirra hafa verið brotin hefur eftirlitshlutverk dómstóla gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds aukist verulega alls staðar á Norðurlöndum. Þar má sérstaklega nefna endurskoðunarvald dómstóla gagnvart lögum,“ segir Björg enn fremur.

Afrakstur rannsóknaverkefnisins mun birtast í bókinni The Nordic Constitutions: A Comparative and Contextual Study sem áætlað er að komi út á vegum breska útgefandans Hart á vormánuðum 2018. Björg ritstýrir bókinni ásamt Helle Krunke, prófessor í stjórnskipunarrétti við Kaupmannahafnarháskóla. „Í hverjum kafla verður tekið fyrir eitt lykilatriði á sviði stjórnskipunarréttar og gerð heildstæð greining á því hvernig það birtist í stjórnskipun hvers lands,“ segir Björg.

Hún bætir við að um sé að ræða nýtt framlag til stjórnskipunarrannsókna sem varpar ljósi á hvernig stjórnskipun norrænu ríkjanna hefur þróast og breyst og ástæður þess. „Þetta er fyrsta samanburðarrit af þessu tagi á ensku og mikilvægt innlegg fyrir alþjóðlegar stjórnskipunarrannsóknir en ekki aðeins á norræna vísu.“