Skip to main content

Staðalímyndir kven- og karlkennara

Maríanna Jónsdóttir, M.Ed. frá Menntavísindasviði

„Vorið 2016 sat ég námskeiðið Menntun og kyngervi: orðræðan um drengi og stúlkur en þar var meðal annars fjallað um kyn kennara. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér viðhorfum foreldra til kennara,“ segir Maríanna Jónsdóttir sem nýverið rannsakaði viðhorf foreldra til karlkyns grunnskólakennara og hvort þau væru frábrugðin viðhorfi til starfssystra þeirra.

Maríanna segir viðmælendur hafa almennt verið jákvæða í garð karlkyns grunnskólakennara og vildu sjá fjölgun þeirra í stéttinni. Flestir voru sammála um að einstaklingsmunur milli kennara væri meiri en kynjamunur en þó voru sumir eiginleikar frekar eignaðir konum eða körlum. „Foreldrarnir tengdu karlmennskuna t.d. við ákveðni og handlagni á meðan kvenleikinn var tengdur umhyggju, hlýju, skilningi og getunni til að gera margt í einu.“

Hún segir niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að ólíkar staðalímyndir kven- og karlkennara hafi áhrif þannig að ekki sé borin sams konar virðing fyrir kynjunum. „Sumir viðmælendur mínir töldu að nemendur bæru meiri virðingu fyrir kennara af þeirra eigin kyni, þ.e. að strákar bæru meiri virðingu fyrir karlkennurum og stúlkur fyrir kvenkennurum. Þá voru raddstyrkur og líkamsburðir karla sagðir áhrifavaldur þegar að því kæmi að öðlast virðingu nemenda.“

Maríanna Jónsdóttir

„Sumir viðmælendur mínir töldu að nemendur bæru meiri virðingu fyrir kennara af þeirra eigin kyni, þ.e. að strákar bæru meiri virðingu fyrir karlkennurum og stúlkur fyrir kvenkennurum. Þá voru raddstyrkur og líkamsburðir karla sagðir áhrifavaldur þegar að því kæmi að öðlast virðingu nemenda.“

Maríanna Jónsdóttir

Þegar spurt var um aga og umhyggju í hlutverki kennara töldu flestir bæði kyn jafnfær um að sinna þeim hlutverkum en gerðu það á ólíkan hátt. „Sumir héldu því fram að karlkennararnir héldu betri aga vegna þess að þeir væru í eðli sínu strangari og harðari. En það var hins vegar enginn sem hélt því fram að kvenkennararnir héldu betri aga,“ segir Maríanna. Hún nefnir einnig að viðmælendur hafi talið umhyggju karla oft fjarlægari en kvenna. Kvenkennurunum leyfðist frekar að sýna hlýju og líkamlega nánd en karlkennararnir héldu sig í ákveðinni fjarlægð.

„Niðurstöðurnar veita innsýn í sjónarmið fjölbreytts hóps foreldra til kyns kennara. Þá nýtast þær einnig til að stuðla að aukinni dýpt í umræðunni um kyn kennara og ólíkar kröfur til karla og kvenna í samfélaginu,“ segir Maríanna að lokum.

Leiðbeinandi: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið