Skip to main content

Smitandi hósti í hrossum

Eggert Gunnarsson, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 

Við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fást vísindamenn m.a. við ýmiss konar dýrasjúkdóma sem koma upp hér á landi, hvort sem er í skepnum á landi eða í sjó. Verkefnin geta teygt sig yfir langan tíma enda ekki alltaf auðvelt að greina hvað veldur sjúkdómunum.

Veturinn 2010 komu upp veikindi í íslenska hrossastofninum sem lýstu sér sem þrálátur hósti. Veikindin breiddust út um allt land á skömmum tíma og höfðu m.a. þau áhrif að aflýsa þurfti Landsmóti hestamanna og allur útflutningur hrossa stöðvaðist meðan á faraldrinum stóð.

Eggert Gunnarson dýralæknir og samstarfsfólk hans fengu það verkefni að greina hvað væri hér á ferðinni. „Þar sem hér var um að ræða sjúkdóm sem menn höfðu ekki áður orðið varir við í íslenska hrossastofninum hér á landi var mjög brýnt að komast að því hvað ylli honum svo hægt væri að bregðast við á viðeigandi hátt.“

Eggert Gunnarsson

„Innflutningur lifandi hrossa til landsins er bannaður og er án efa mikilvægasta hindrunin í að smitsjúkdómar berist í íslenska hrossastofninn."

Eggert Gunnarsson

Í upphafi var talið að um veirusýkingu væri að ræða en nánari rannsóknir Eggerts og félaga leiddu í ljós að um var að ræða sjúkdóm sem rekja mátti til tiltekinnar bakteríutegundar, Streptococcus equi subsp. zooepidemicus. „Með erfðagreiningu, smittilraun og áframhaldandi erfðafræðilegum rannsóknum kom í ljós að tiltekinn stofn þessarar bakteríu smitaðist á milli hesta og leiddi til dæmigerðra einkenna smitandi hósta,“ segir Eggert.

Frekari rannsóknir hafa leitt í ljós að bakteríustofninn er nú landlægur í hrossum hér á landi og veldur einkennum hjá ungum hrossum sem ekki hafa myndað mótefni gegn honum. „Hann getur enn fremur smitast í aðrar dýrategundir eins og hunda og ketti og jafnvel valdið alvarlegum veikindum í fólki,“ bendir Eggert á.

En hvernig berst sjúkdómur sem þessi í jafneinangraðan stofn og þann íslenska? Eggert segir að skyldir stofnar hafi greinst í hrossum í Skandinavíu og líklegast sé að smit hafi borist hingað til lands þegar beislabúnaður, sem notaður hafði verið erlendis, hafi verið fluttur ólöglega hingað til lands. „Innflutningur lifandi hrossa til landsins er bannaður og er án efa mikilvægasta hindrunin í að smitsjúkdómar berist í íslenska hrossastofninn. Innflutningur á notuðum búnaði sem notaður hefur verið í umhverfi hrossa er einnig bannaður enda ber hann með sér umtalsverða hættu á að ný og alvarleg smitefni berist til landsins. Faraldur smitandi hósta var rækileg áminning um þörfina á að framangreindar smitvarnir séu virtar,“ segir hann að endingu.