Skip to main content

Skarfakál á hvers manns disk

„Rannsókn okkar snýst um að nýta skarfakál, sem vex villt í íslenskri náttúru, til manneldis. Við viljum bjóða upp á innlendan valkost við klettasalat, spínat og fleira,“ segir Ari Tómasson, nemandi í vélaverkfræði. Hann hefur ásamt fleirum unnið viðskiptaáætlun fyrir framleiðslu og sölu á þessari íslensku strandjurt sem vex best þar sem jarðvegur er moldríkur eða þykkur, „til dæmis við lundaholur og við bæi við ströndina,“ eins og segir á Vísindavef Háskóla Íslands. 

Skarfakál er forn og holl lækningajurt og afar rík af C-vítamíni. Það kemur því ekki á óvart að áður fyrr var þessi jurt talin býsna verðmæt og í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem kom út árið 1772, er skarfakál talið til hlunninda.  

Ari Tómasson

Ari segist hafa ráðfært sig við sérfræðinga og þá hafi komið í ljós að skarfakál sé alls ekki vandræktað. „Vandamálið er aðallega markaðslegt.“ Að sögn Ara er skarfakál harðgert og því spennandi möguleiki að rækta það í jarðvegi með hátt seltustig sem nýtist ill í annað þar sem skarfakál er einkar setuþolið.

Ari Tómasson

„Ég var á ferðalagi um Vestfirði, nánar tiltekið á Rauðasandi, og tók eftir skarfakálsbrúsk í flæðarmálinu,“ segir Ari um þessa sérstæðu jurt. „Ég hafði nýlega lesið um skarfakál. Það var áður talið afar mikilvægt sem vörn gegn skyrbjúg.  Ég ákvað að smakka. Mér til mikillar undrunar var það mjög bragðgott og minnti bragðið á klettasalat. Ég hugsaði: Hvers vegna er skarfakál ekki fáanlegt í matvöruverslunum? Ég myndi kaupa það umhugsunarlaust.“ 

Ari segist hafa ráðfært sig við sérfræðinga og þá hafi komið í ljós að skarfakál sé alls ekki vandræktað. „Vandamálið er aðallega markaðslegt.“ Að sögn Ara er skarfakál harðgert og því spennandi möguleiki að rækta það í jarðvegi með hátt seltustig sem nýtist ill í annað þar sem skarfakál er einkar setuþolið.

Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á nýsköpun nemenda og styður þá í að hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd. Hugmyndin um skarfakálið var því þróuð áfram í tveimur spennandi námskeiðum um nýsköpun innan skólans. Fyrra námskeiðið bar heitið Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana og það seinna Frá hugmynd að veruleika. Að sögn Ara var verkefnið unnið í námskeiðunum í samvinnu við þær Guðrúnu Önnu Atladóttur og Solveigu Þrándardóttur, sem báðar hafa nú lokið BS-gráðu í iðnaðarverkfræði, og Vilborgu Guðjónsdóttur, sem lokið hefur BS-gráðu í vélaverkfræði, allar frá Háskóla Íslands. 

Ari hyggst halda áfram með verkefnið og kanna áfram möguleikana á markaðssetningu á skarfakálinu. „Fjölbreytt fæðuúrval skiptir okkur öll máli og óneitanlega er áhugavert að endurvekja neyslu skarfakáls en samkvæmt könnun sem gerð var innan Háskóla Íslands höfðu fæstir nemendur nokkra vitneskju um þessa jurt,“ segir Ari. 

Leiðbeinendur: Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Jóhann Pétur Malmquist, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Kristján Freyr Kristjánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Klaks Innovits, og Páll Kristján Pálsson, framkvæmdastjóri Skyggnis-viðskiptaráðgjafar.

Tengt efni