Skip to main content

Sjávarauðlindir og loftslagsbreytingar

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði

Blár hagvöxtur er hugtak sem hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum og snýr eins og nafnið bendir til að hafinu bláa og því sem það getur gefið. Þetta hugtak er í brennidepli í risastóru alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem fulltrúar Háskóla Íslands taka þátt í.

„Blár hagvöxtur snýst um það hvernig auka eigi virði þess sem hafið gefur af sér, hvort sem það er með fiskeldi, sjávarútvegi eða siglingum, en á umhverfisvænan hátt,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði og einn þátttakenda í verkefninu sem ber, ótrúlegt en satt, heitið GreenMAR.

„Við viljum gera okkur betur grein fyrir því hvernig við getum aukið virði sjávarauðlinda en nýtt þær á sama tíma á sjálfbæran hátt. Við skoðum þetta í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á vistkerfum hafsins vegna loftslagsbreytinga, þ.e. í ljósi hlýnunar og súrnunar sjávar,“ segir Brynhildur og bendir á nærtækt dæmi fyrir Íslendinga. „Vegna breytinga á hitastigi sjávar fór makríllinn að venja komur sínar inn í íslenska lögsögu fyrir nokkrum árum með gríðarlegri virðisaukningu fyrir íslenskan sjávarútveg.“

Brynhildur Davíðsdóttir

„Nýlegar rannsóknarniðurstöður samstarfsmanna okkar hjá Columbiaháskóla sýna t.d. að framleiðni í fiskeldi muni líklega aukast vegna hækkandi hitastigs sjávar.“

Brynhildur Davíðsdóttir

Auk Íslendinga koma sænskir og norskir háskólar og rannsóknastofnanir að GreenMAR-verkefninu ásamt fræðimönnum og doktorsnemum frá Hollandi, Rússlandi, Bandaríkjum og Austurríki. Rannsóknarhóparnir hafa ólíkar áherslur og skoða t.d. áhrif fiskveiða á þróun þorsks, félags- og efnahagsleg áhrif sjávarútvegs og möguleika fiskeldis samfara loftslagsbreytingum. „Nýlegar rannsóknarniðurstöður samstarfsmanna okkar hjá Columbia-háskóla sýna t.d. að framleiðni í fiskeldi muni líklega aukast vegna hækkandi hitastigs sjávar,“ bendir Brynhildur á. Innan Háskóla Íslands koma bæði starfsmenn skólans og doktorsnemar að verkefninu og áhersla þeirra er á áhrif loftslagsbreytinga á göngu hér á landi. „Doktorsnemarnir skoða t.d. áhrif loftslagsbreytingar á göngu uppsjávarfiska og hvernig stýra beri nýtingu stofnanna í gegnum samninga innan lands og á alþjóðlegum vettvangi. Nemendurnir skoða einnig vistspor sjávarútvegsins, hvernig hægt er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi og hvort hægt er að auka virði afurða innan kvótakerfisins, bæði fyrir iðnaðinn sjálfan og íslenskt samfélag allt,“ segir Brynhildur og undirstrikar mikilvægi þess fyrir tengslanet doktorsnema til framtíðar að taka þátt í jafnstóru alþjóðlegu verkefni og GreenMAR.

Verkefnið hefur mikla samfélagslega þýðingu að sögn Brynhildar. „Í alþjóðlegu samhengi eru blár og grænn hagvöxtur, þ.e. hvernig við getum aukið virði lífkerfanna okkar á landi og í hafi en komumst á sama tíma hjá því að ganga á þau, undirstaða áframhaldandi hagsældar í heiminum. Frá sjónarhóli Íslendinga erum við m.a. að skoða hvernig við nýtum þá gríðarmiklu möguleika sem eru í virðisaukningu í sjávarútvegi fyrir samfélagið í heild en jafnframt hvort við sem þjóð þurfum að haga okkur einhvern veginn öðruvísi gagnvart sjávarauðlindinni í ljósi loftslagsbreytinga.“