Skip to main content

Siðblindueinkenni stjórnenda

Harpa Hödd Sigurðardóttir, MS frá Viðskiptafræðideild

Rúmur helmingur þátttakenda í MS-rannsókn Hörpu Haddar Sigurðardóttur í mannauðsstjórnun á siðblindueinkennum íslenskra yfirmanna taldi yfirmenn sína sýna sterk einkenni siðblindu. Þá gáfu þeir sem töldu yfirmenn sína siðblinda þeim verri einkunn sem stjórnendur. „Siðblinda er alvarleg persónuleikaröskun sem einkennist af þrálátu andfélagslegu atferli, mikilli sjálfhverfu og skorti á samhygð og eftirsjá. Þetta hefur mér lengi þótt áhugavert,“ segir Harpa um kveikjuna að rannsókninni.

Í rannsókn sinni bað hún þátttakendur um að meta styrkleika siðblindueinkenna yfirmanna sinna og leggja mat á samskipta- og stjórnunarstíl þeirra. Þá svöruðu þeir matslistum um óæskilega hegðun og einelti á vinnustað. Ekki er vitað til þess að slík rannsókn hafi áður verið gerð á Íslandi. Siðblindir starfsmenn eru um hálft til eitt prósent allra starfsmanna samkvæmt fyrri rannsóknum. Þrátt fyrir þetta lága hlutfall má rekja um 25–30% vinnustaðaeineltis til þeirra. „Þeir búa oft yfir yfirborðsþokka við fyrstu sýn en reynast oft meinyrtir í framkomu við undirmenn og eru gjarnan uppvísir að ýmiss konar óæskilegri vinnuhegðun.
 

Harpa Hödd Sigurðardóttir

„Siðblindir virðast einnig laðast sérstaklega að stjórnendastörfum þar sem tíðni þeirra er allt að fjórfalt hærri,“ segir Harpa. Slíkum stöðum fylgja iðulega einhver völd og því geti verið erfitt fyrir starfsmenn og þolendur að takast á við vandamálið eða kvarta undan gerandanum.

Harpa Hödd Sigurðardóttir

Siðblindir skeyta lítið um líðan annarra, tileinka sér góð verk og koma mistökum yfir á aðra. Slíkt getur ýtt undir streitu, aukið starfsmannaveltu og dregið úr starfsánægju auk fjölda annarra neikvæðra áhrifa sem smitast auðveldlega út um skipulagsheildina. Þeir virðast því geta valdið miklum skaða og usla þar sem þeir eru til staðar,“ segir Harpa. Siðblindir virðast enn fremur laðast að áhættusæknu og breytilegu starfsumhverfi. Þeir geta virst heillandi og hæfileikaríkir starfsmenn enda afar lagnir við að hylma yfir hegðun sína og líkja eftir félagslega eftirsóknarverðu atferli.

„Siðblindir virðast einnig laðast sérstaklega að stjórnendastörfum þar sem tíðni þeirra er allt að fjórfalt hærri,“ segir Harpa. Slíkum stöðum fylgja iðulega einhver völd og því geti verið erfitt fyrir starfsmenn og þolendur að takast á við vandamálið eða kvarta undan gerandanum. Að sögn Hörpu ættu fyrirtæki, sérstaklega stór og þar sem mikið er í húfi, að vera meðvituð um möguleg neikvæð áhrif siðblindra starfsmanna. „Fyrirtæki ættu því að sjá hag sinn í því að þróa og innleiða ferli til að koma í veg fyrir ráðningu siðblindra. Til dæmis með því að þekkja viðvörunarmerki siðblindu og með ítarlegum ráðningarferlum,“ segir hún að lokum.

Leiðbeinandi: Þórður S. Óskarsson, aðjunkt við Viðskiptafræðideild