Skip to main content

Sérkenni íslenskra stjórnarhátta

Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptafræðideild 

Við Háskóla Íslands er starfrækt Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti. Þar er megináhersla lögð á að efla góða stjórnarhætti á Íslandi, bæði með menntun, átaksverkefnum og rannsóknum. „Það er nauðsynlegt að skilja betur hinn íslenska veruleika til þess að rannsóknarmiðstöðin sé markvirk,“ segir Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptafræðideild og forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar. Þar hefur m.a. verið rannsakað hvað einkennir íslenska stjórnarhætti, bæði út frá þeim aðstæðum og umhverfi sem fyrirtæki eru í, og hvernig stjórnarstarfi er háttað á Íslandi.

Eyþór telur að stjórnarhættir fyrirtækja séu gjarnan vanmetinn þáttur í heildarskipulagi þeirra. „Rannsóknarmiðstöðin hefur lagt áherslu á að góðir stjórnarhættir geti haft veruleg áhrif á verðmætasköpun, vöxt og sjálfbærni fyrirtækja. Þess vegna er þetta mikilvægt rannsóknasvið,“ segir hann.

Eyþór segir töluverða umræðu hafa verið um ólík stjórnarháttarkerfi í Evrópu. Þá hafi það verið til skoðunar á Norðurlöndum sérstaklega hvort til sé norrænt stjórnarháttamódel. Fyrir rétt rúmum tveimur árum kom út bókin „The Nordic Corporate Governance Model“ í ritstjórn Per Lekvalls, en ekkert var minnst á Ísland þar.

Eyþór Ívar Jónsson

„Rannsóknarmiðstöðin hefur lagt áherslu á að góðir stjórnarhættir geti haft veruleg áhrif á verðmætasköpun, vöxt og sjálfbærni fyrirtækja. Þess vegna er þetta mikilvægt rannsóknasvið.“

Eyþór Ívar Jónsson

„Við vildum taka þátt í Nordic Corporate Governance Model-verkefninu með það í huga að meta annars vegar hvort íslenskir stjórnarhættir heyri undir norræna stjórnarhætti og hins vegar hvað geri þá frábrugðna því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna skrifuðum við aukakafla þar sem sýnt er fram á að íslenskir stjórnarhættir tilheyra norræna módelinu en hafa engu að síður mörg sérkenni, eins og smæð hagkerfisins og fyrirtækja, eignarhald lífeyrissjóða, engilsaxnesk áhrif á skipulag stjórna og fleira sem gerir það að verkum að það verður að skoða íslenska stjórnarháttakerfið sérstaklega,“ segir Eyþór.

Hann segir töluverðan misskilning ríkja á Íslandi um það hvers konar stjórnarháttamódel fyrirtæki þurfa að tileinka sér. „Aðalatriðið er að það þarf að vera háð aðstæðum og sú niðurstaða skiptir verulegu máli í umræðunni um kenningar og hvernig á að skipuleggja stjórnarstarf í fyrirtækjum,“ segir Eyþór að lokum.

Auk þess að stunda rannsóknir á stjórnarháttum í fyrirtækjum stendur Eyþór nú í ströngu því hann fer fyrir undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnu samtakanna European Academy of Management (EURAM) sem haldin verður hér á landi á vegum Viðskiptafræðideildar í júní 2018. Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu sem haldin er í viðskiptafræði í Evrópu ár hvert en von er á 1.200-1.400 erlendum fræðimönnum til landsins vegna hennar.