Skip to main content

Seigla er áríðandi vopn í erfiðleikum

Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Menntavísindasvið 

„Með hugtakinu seigla er átt við það ferli barna og unglinga að aðlagast á farsælan hátt í samspili við styðjandi umhverfisþætti þrátt fyrir að búa við erfiðar aðstæður, áföll eða mótlæti.“ Þetta segir Sigrún Aðalbjarnar, prófessor við Menntavísindasvið, um viðfangsefni sín í fjölmörgum rannsóknum sem hún hefur unnið að undanfarin ár.

Sigrún hefur í þessum rannsóknum leitað svara við því hvernig á því standi að börn, ungmenni og fólk almennt, sem hafi þurft að takast á við ýmsar erfiðar aðstæður eða áföll í lífinu, virðist koma tiltölulega óskaddað eða heilt frá þeirri erfiðu reynslu.

„Fræðimenn eru sammála um að allir búi yfir hæfni til að sýna seiglu og að hægt sé að rækta hana og efla. Þótt hressilega blási á móti í lífi barns eða ungmennis eru líkur á því að mörg þeirra spjari sig með stuðningi vistkerfa samfélagsins. Þá er ekki aðeins átt við heimili og skóla heldur einnig stofnanir samfélagsins,“ segir Sigrún.

Sigrún Aðalbjarnardóttir

„Rannsóknir sýna að miklu skiptir í lífi barns eða ungmennis, sem býr við erfiðar aðstæður, að eiga fullorðna manneskju að. Manneskju sem tekur barninu eða ungmenninu á þess eigin forsendum, áttar sig á þörfum þess og hlúir að þroska þess og velferð."

Sigrún Aðalbjarnardóttir

Rauður þráður í rannsóknum á seiglu er að skoða mikilvægi samskipta til að börn og ungmenni geti þróað með sér seiglu. „Rannsóknir sýna að miklu skiptir í lífi barns eða ungmennis, sem býr við erfiðar aðstæður, að eiga fullorðna manneskju að. Manneskju sem tekur barninu eða ungmenninu á þess eigin forsendum, áttar sig á þörfum þess og hlúir að þroska þess og velferð. Hér er um að ræða skýr skilaboð til uppalenda sem við erum öll hvert og eitt með einum eða öðrum hætti.“

Sigrún segir að gildi rannsókna á seiglu felist í því að skoða hvernig ýmsir styrkleikaþættir, sem búa jafnt með einstaklingum, fjölskyldum, nærumhverfi og samfélagi, geti varpað ljósi á hvernig börn, unglingar og fullorðnir takast á við áhættu- og verndandi þætti í lífi sínu.

„Niðurstöður rannsóknanna ættu því að skipta máli við að móta og marka stefnu í velferðarmálum sem styður við börn og fjölskyldur þeirra. Leiðarljósið er að hlúa að heill barna og ungmenna í samtíð og framtíð hverjar sem aðstæður þeirra eru, bæði í þeirra eigin þágu og samfélagsins.“