Skip to main content

Rúmur helmingur metur heilsu sína verri eftir COVID-19-veikindi

Heilbrigðisstarfsmaður bindur á sig grímu

Liðlega helmingur þeirra sem smituðust af COVID-19 í fyrstu bylgju faraldursins í vor meta heilsu sína verri nú en fyrir veikindin. Þetta sýna frumniðurstöður í viðamiklu rannsóknaverkefni fræðikvenna á sviði hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala.

Verkefnið snýst ekki aðeins um afdrif þeirra, sem smituðust af COVID-19, að lokinni útskrift því einnig er ætlunin að varpa ljósi á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu við þennan hóp á Landspítala. Það reyndist meiri háttar átak sem ráðist var í á skömmum tíma í skugga lífshættulegs sjúkdóms af lítt þekktum toga. „Hjúkrunarfræðingar gegndu þar lykilhlutverki og óskuðu eftir samstarfi við rannsakendur í þessu verkefni,“ segir Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna á Landspítalanum, sem stýrir verkefninu. Hún bætir við að markmiðið með rannsókninni sé einnig að lýsa hjúkrun sjúklinga á bæði göngu- og legudeild spítalans og þeim einkennum sem sjúklingar fundu fyrir.

Stór hópur fræðikvenna og sérfræðinga í hjúkrun kemur að verkefninu sem er margþætt að sögn Helgu. „Við byggjum rannsóknina á sjúkraskrárgögnum, rýnihópaviðtölum við hjúkrunarfræðinga og póstkönnun sem við höfum sent til útskrifaðra sjúklinga,“ segir hún en auk Helgu koma m.a. þær Brynja Ingadóttir, Sigríður Zoega, Elín J.G. Hafsteinsdóttir og Katrín Blöndal að rannsókninni.

„Niðurstöðurnar auka þekkingu okkar á tilvist og þróun einkenna á meðan á sýkingu stendur og eftir að hún er gengin yfir og þær hafa þegar verið hagnýttar við þróun á heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem glíma við langvinn eftirköst sýkingarinnar. Auk þessa munu niðurstöðurnar veita einstaka innsýn inn í hjúkrun sjúklinga í gegnum síma og sjúklinga í einangrun sem getur orðið innlegg í þróun fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi,“ segir Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild.

Helga Jónsdóttir

Niðurstöður geta nýst í þróun fjarheilbrigðisþjónustu hér og á alþjóðavettvangi

Aðspurð segir hún endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar ekki liggja fyrir en að frumniðurstöður varpi ljósi á þær einstöku aðstæður sem sköpuðust í fyrstu bylgju COVID-19 sýkingarinnar. „Eining, traust og samstaða starfsfólks á einstökum óvissutímum gerði mögulegt að ná utan um faraldurinn, m.a. með mikilli umönnun sem að miklu leyti var veitt í fjarheilbrigðisþjónustu,“ segir Helga.

Fjölmiðlar hafa í sumar og haust birt frásagnir fólks sem smitaðist af COVID-19 í vor, bæði erfiðum veikindum skömmu eftir smit og sömuleiðis töluverðum eftirköstum í kjölfar sjúkdómsins. Niðurstöður úr póstkönnun Helgu og samstarfskvenna, sem nær til 900 svarenda, benda til að slíkt hafi sé algengt. „Niðurstöður meðal þeirra sem fengu COVID-19-smit gefa til kynna að þeir fundu fyrir margs konar einkennum á meðan á veikindum stóð og enn mörgum vikum og mánuðum eftir að þeim lauk. Algengustu einkenni, bæði meðan á veikindum stóð og eftir að sýking var gengin yfir, voru slappleiki, þreyta, mæði, höfuðverkur og önnur óþægindi og verkir. Um 60% þátttakenda meta heilsu sína verri nú en fyrir veikindin sem bendir til langvinnra áhrifa COVID-19 eftir að einangrun lýkur,“ segir Helga enn fremur.

Ljóst má vera að rannsókn sem þessi hefur gríðarmikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag þar sem hún veitir í senn verðmæta vitneskju um hvernig best er að standa að viðbrögðum við heimsfaraldri um leið og hún varpar ljósi á stöðu þeirra sem fyrir veikindunum verða. „Niðurstöðurnar auka þekkingu okkar á tilvist og þróun einkenna á meðan á sýkingu stendur og eftir að hún er gengin yfir og þær hafa þegar verið hagnýttar við þróun á heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem glíma við langvinn eftirköst sýkingarinnar. Auk þessa munu niðurstöðurnar veita einstaka innsýn inn í hjúkrun sjúklinga í gegnum síma og sjúklinga í einangrun sem getur orðið innlegg í þróun fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi,“ segir Helga enn fremur.