Skip to main content

Ríkuleg sóknarfæri á sviði heimsmarkmiðanna fyrir HÍ 

Ríkuleg sóknarfæri á sviði heimsmarkmiðanna fyrir HÍ  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hafa undanfarin fimm ár verið leiðarstef í alþjóðasamstarfi ríkja, eða allt frá því að aðildarríki samþykktu að vinna eftir þeim í september árið 2015. Markmiðin, sem eru 17 talsins og gilda á tímabilinu 2016-2030, snerta allt samfélagið enda er ætlunin með innleiðingu þeirra m.a. að vinna gegn fátækt og hugri í heiminum, stuðla að hagsæld, friði og mannréttindum öllum til handa, að sjálfbærni á öllum sviðum og aðgerðum í þágu umverfis og loftslags.

Heimsmarkmiðin hafa fengið æ meiri athygli í starfi Háskóla Íslands. Skólinn hefur m.a. staðið fyrir fundaröð þar sem vísindamenn skólans og fulltrúar úr íslensku samfélagi hafa varpað ljósi á þýðingu markmiðanna og undirmarkmiða þeirra og leiðina að settu marki. Þá hefur enn fremur verið unnin útttekt á því hvar í námskeiðum fræðasviða Háskóla Íslands er unnið með sjónarmið sjálfbærrar þróunar og sjálfbærnimenntunar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Fyrir þeirri vinnu fór Auður Pálsdóttir, lektor á Menntavísindasviði, í samstarfi við Láru Jóhannsdóttur, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði á Félagsvísindasviði.

Greindu 3.300 námskeið

„Verkefnið fólst í því að greina námskrá Háskóla Íslands veturinn 2019–2020, að rýna námskeiðslýsingar og hæfniviðmið allra námskeiða á öllum fimm fræðasviða háskólans, sem eru um 3.300 talsins. Markmiðið var að kortleggja námsframboð og inntak námskeiða með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og sjálfbærnimenntun,“ segir Auður.

Eins og gefur að skilja var um umfangsmikið verk að ræða og því fengu þær Auður og Lára fimm nemendur á Menntavísindasviði til liðs við sig sem hver og einn vann meistaraverkefni tengt rannsókninni. „Hver meistaranemi greindi öll námskeið eins fræðasviðs. Hafdís Ósk Jónsdóttir greindi námskeið Félagsvísindasviðs, Guðjón Már Sveinsson greindi námskeið Heilbrigðisvísindasviðs, Bjarni Bachmann greindi námskeið Hugvísindasviðs, Hildur Hallkelsdóttir greindi námskeið Menntavísindasviðs og Atli Rafnsson greindi námskeið Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Auk þessa vann hver meistaranemi sérverkefni sem fól í sér valið viðfangsefni,“ útskýrir Auður.

Auður og Lára eru báðar í sjálfbærninefnd háskólans og þar hefur ný sjálfbærnistefna háskólans verið í mótun. „Erlendis líkt og á Íslandi eru litlar upplýsingar til um hvar í námsframboði háskóla er unnið að heimsmarkmiðunum. Því var ákveðið að kortleggja öll námskeið HÍ, hvort sem þau voru kennd eða ekki þennan vetur því mörg námskeið eru í boði annað hvert ár en mynda samfellda heild í námi nemenda,“ segir Auður um kveikjuna að verkefninu.

„Því þarf að fjalla um og vinna með heimsmarkmiðin svo allir innan háskólans átti sig á inntaki þeirra og markmiðum og hvernig við í HÍ getum lagt af mörkum í vegferð alþjóðasamfélagsins á sviði sjálfbærrar þróunar og sjálfbærnimenntunar. Við erum að gera margt innan háskólans sem fellur vel að vegferðinni um sjálfbæra þróun en það birtist ekki nemendum í kennsluskrá með nógu skýrum hætti,“ segir Auður Pálsdóttir.

Þarf að vinna áfram með markmiðin innan skólans

Í tengslum við verkefnið var þróaður sérstakur greiningarlykill og hugtakalisti á íslensku og ensku sem innihélt lykilorð hvers heimsmarkmiðs sem svo var beitt við greiningarvinnuna. Þá gerðu meistaranemarnir greiningarlykil eða viðmið, hver um sitt sérverkefni, sem einnig var beitt í greiningunni en greiningarlyklarnir voru prófaðir og slípaðir til í samvinnu hópsins. „Ætlunin var að tryggja eins samræmd vinnubrögð og kostur var til að tryggja eftir fremsta megni áreiðanleika niðurstaðna og samanburð milli fræðasviða,“ útskýrir Auður.  

Aðspurð um niðurstöður verkefnisins segir Auður að rannsóknin hafi leitt í ljós að sóknarfæri Háskóla Íslands á sviði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna eru ríkuleg. „Háskólinn virðist um margt standa í svipuðum sporum og aðrir háskólar sem eru að feta sinn veg í innleiðingu heimsmarkmiðanna. Hins vegar virðist áríðandi að beina sjónum að lykilhæfni heimsmarkmiðanna sem SÞ skilgreindu samhliða heimsmarkmiðunum sem forsendu vinnu við heimsmarkmiðin og eiga við um allt nám,“ segir Auður enn fremur. 

Með lykilhæfni er átt við getu sem fólk öðlast óháð inntaki fræðigreina. „Þetta er t.d. getan til að greina og skilja mismunandi kerfi og tengsl þeirra, getan til að beita gagnrýninni hugsun og vera skapandi og ekki síður getan að taka þátt í samstarfi og takast á við ágreining. Slíka lykilhæfni öðlast nemendur í gegnum fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast margs konar þekkingu en líka vilja fólks og áhuga. Í þessu ljósi hafa Sameinuðu þjóðirnar lengi lagt áherslu á að nemendur hafi áhrif á hvað og hvernig þeir læra.“

Auður bætir við að heimsmarkmiðin séu afar víðfeðm og margt af því sem falli undir þau eigi ekki í fyrstu sýn við á Íslandi. „Því þarf að fjalla um og vinna með heimsmarkmiðin svo allir innan háskólans átti sig á inntaki þeirra og markmiðum og hvernig við í HÍ getum lagt af mörkum í vegferð alþjóðasamfélagsins á sviði sjálfbærrar þróunar og sjálfbærnimenntunar. Við erum að gera margt innan háskólans sem fellur vel að vegferðinni um sjálfbæra þróun en það birtist ekki nemendum í kennsluskrá með nógu skýrum hætti,“ segir Auður.

Auður og Lára binda jafnframt vonir við að samstarf Háskóla Íslands innan Aurora-netsins svokallaða, sem er samstarf níu evrópskra háskóla sem allir leggja ríka áherslu á hágæðarannsóknir og samfélagslega ábyrgð, komi einnig að gagni því heimsmarkmiðin eru fléttuð inn í allt starf netsins. „Við höfum við miklar væntingar um árangur þess þróunar- og rannsóknarstarfs á næstu þremur árum.“