Reiðin er nashyrningur tilfinningalífsins | Háskóli Íslands Skip to main content

Reiðin er nashyrningur tilfinningalífsins

Reiðin er nashyrningur tilfinningalífsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sá sem reiðist verður oft feginn í andartak en eftirsjáin getur varið ævina á enda. Þetta tónar vel við Vídalínspostillu (1718) þar sem fullyrt er að heiftin sé eitt andskotans reiðarslag. Hún láti manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar, svo sem þegar hafið er upp blásið af stórviðri. Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru. Þetta reit Jón Vídalín Skálholtsbiskup (1666-1720) snemma á 18. öld. 

Í þessa orðkyngi til höfuðs heiftinni er oft vitnað en við þekkjum fjölmörg dæmi um pælingar tengda reiði af enn eldri toga. Ekkert dýr annað en maðurinn finnur til reiði því enda þótt reiðin sé fjandi skynseminnar kemur hún einungis fram þar sem skynsemin býr, sagði rómverski heimspekingurinn Seneca sem reit bókina De ira, fáum misserum eftir fæðingu Krists. 

Reiðin er reyndar alls staðar og getur verið vopn í pólitík. Hún kraumar og sýður á kappvöllum og á pöllunum, hún á sér líka stundum stað í daglega lífinu. Heiftin er hjá sumum virkum í athugasemdum, hún er á Facebook, Twitter og í tónlist, í bókmenntum og listum og í afþreyingunni. 

„Reiði hefur alltaf heillað mig sem fyrirbæri. Allt frá reiðiköstum Andrésar Andar, köldum kveðjum Dirty Harry eða skrautlegum blótsyrðum John McClane,“ segir doktorsneminn Rósa María Hjörvar sem tekst nú á við það vandasama verkefni að rannsaka reiðina í íslenskum bókmenntum frá síðari hluta 20. aldar. 

„Við hrífumst af reiðinni,“ heldur hún áfram og brosir við þessum hæsta tóni í skapsveiflum mannsins. „Við hlæjum að henni, upphefjum hana jafnvel og köllum hana jákvætt hreyfiafl. En á sama tíma viljum við fæst lifa í viðjum reiðinnar. Reiðihegðun og afleiðingar hennar skelfa okkur. Þannig er álit okkar á reiði þversagnarkennt.  Það er alltaf gaman að skoða slíkt betur,“ segir Rósa María og bætir því við að rannsóknin sé unnin með hliðsjón af stöðu Íslendinga sem fyrrum nýlenduþjóðar. „Ég vil sjá hvaða áhrif sú staða okkar Íslendinga getur haft á þróun menningar.“

Mikil eftirhrunsreiði á Íslandi

Rósa María bjó í um tuttugu ár í Kaupmannahöfn og flutti heim nokkrum árum eftir hrun. Hún segir það hafa komið sér á óvart hversu algeng reiðin hafi verið í skrifaðri umræðu og í orðræðunni meðal almennings á þeim tíma. 

„Að sama skapi virtust íslenskar bókmenntir vera uppfullar af reiðum mönnum. Mig langaði til þess að skilja þetta menningarfyrirbæri betur og frásögnina sem felst í reiðinni.“ 

Reiðin er viðfang í rannsóknum ólíkra fræðigreina

Reiðin er fjölfræðilegt viðfangsefni. Hún er viðfangsefni sálfræðinnar þar sem stundum er talað um gagnsemi hennar; hún sé kjarnatilfinning, uppspretta þess að rétta sinn hlut í aðstæðum þar sem á okkur er brotið. Langvarandi reiði og stjórnlaus er hins vegar talin hafa skaðleg áhrif á okkur andlega og líkamlega.  

„Ég lít á reiði sem nashyrning tilfinningalífsins. Hún er einhvern veginn svo forn og fyrirferðamikil,“ segir Rósa María og hittir naglann á höfuðið því eins og ráða má af prédikun Vídalíns hér að framan hefur reiðin alls kyns áhrif á líkamann. Blóðþrýstingur hækkar, hjartað slær hraðar og blóðflæði eykst, andardrátturinn verður ör.

„Maður ætti að halda að reiðin ætti sér engan stað í þeim siðuðu og háþróuðu samfélögum sem við byggjum. En staðreyndin er sú að tíðni hennar virðist aukast í nútímanum og sumir halda því fram að nútímamaðurinn sé reiðari en nokkrir fyrirrennarar hans. Svo er reiðin svo margþætt, hún getur verið göfug, ljót og fyndin. Manneskjan skellir hurðum, roðnar og jafnvel hoppar af reiði og krefst þess að vera tekin alvarlega. Þannig er svo margt heillandi og skemmtilegt við að rannsaka reiði sem menningarfyrirbæri.“

„Við stöndum núna frammi fyrir mikilli byltingu hvað varðar samskipti okkar hvert við annað. Mikið er að færast yfir í textaform, t.d. í sms, messenger eða í stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum. Þar að auki er vægi frásagnarinnar að aukast. Hvort sem það er í auglýsingum eða einkalífinu. Fyrirtækin og einstaklingar segja og móta sögu sína á nýjum miðlum og nota frásagnaraðferðir sem við þekkjum úr bókmenntum,“ segir Rósa María Hjörvar doktorsnemi.  

Rósa María Hjörvar

Reiðin er úti um allt

Rósa María hefur sökkt sér ofan í allskyns texta, þar sem rannsóknarefni hennar helst liggur, og segir að full ástæða sé til að kanna betur tengsl texta og tilfinninga og leita uppi lögmál reiðinnar í ólíkri tegund frásagnar. 

„Við stöndum núna frammi fyrir mikilli byltingu hvað varðar samskipti okkar hvert við annað. Mikið er að færast yfir í textaform, t.d. í sms, messenger eða í stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum. Þar að auki er vægi frásagnarinnar að aukast. Hvort sem það er í auglýsingum eða einkalífinu. Fyrirtækin og einstaklingar segja og móta sögu sína á nýjum miðlum og nota frásagnaraðferðir sem við þekkjum úr bókmenntum. Svo hefur mikið verið rætt um aukna reiði og hatursorðræðu á þessum sömu miðlum. Bókmenntir eru ein leið til þess að tjá tilfinningar í texta og ég tel að við getum lært heilmikið af því að skoða þær nánar.“   

Leiðbeinandi Rósu Maríu í verkefninu er Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild. Rósa María segir að verkefnið geti auðveldlega aukið skilning okkar á þeim heimi sem við búum í þar sem markmiðið sé öðrum þræði að skoða listina í ljósi áhrifa heimsvaldastefnunnar á þjóðir og menningu. 

Ljóst er að þegar Rósa María reynir að fanga reiðina í öllu rituðu er hafið djúpt og mikið og fengurinn ekki alltaf jafn auðveiddur og í þessu ljóði Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti (1879–1939). 

Í dag er ég reiður, í dag vil ég brjóta,
drepa og brenna hér allt niðr‘ í svörð;
hengja og skjóta‘ alla helvítis þrjóta,
hræki nú skýin á sökkvandi jörð!
Farðu‘ í heitasta hel!
Skaki hörmungaél
hnöttinn af brautinni, og þá er vel!