Regnvatnið nýtt í nærumhverfinu | Háskóli Íslands Skip to main content

Regnvatnið nýtt í nærumhverfinu

Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild 

„Húsið er að gráta, alveg eins og ég,“ segir í frægu lagi hljómsveitarinnar Grafíkur. Þar er m.a. sungið um rigninguna og hús með grænu þaki en hvort tveggja kemur við sögu í rannsóknarverkefni Hrundar Ólafar Andradóttur, prófessors í umhverfisverkfræði. „Verkefnið snýst um að skoða leiðir til þess að innleiða sjálfbærar regnvatnslausnir í nærumhverfi okkar. Í stað þess að regnvatn af götum og þökum renni í neðanjarðarlagnir og annaðhvort beint út í sjó eða í næstu skólphreinsistöð er hugmyndin að nýta regnvatnið á staðnum. Sjálfbærar lausnir fela þannig í sér græn torfþök, tjarnir, regngarða og gróðursvelgi,“ segir Hrund.

Þessar lausnir hafa marga kosti. „Þær auka vægi gróðurþekju og vatns í borgarumhverfinu og jafnframt hreinsa þær vatnið af þungmálmum og saurgerlum á náttúrulegan hátt ásamt því að auka vistfræðilegan fjölbreytileika. Græn þök auka einnig einangrunargildi húsa og það getur leitt til lækkunar kyndingarkostnaðar. Þá má benda á að það er mjög dýrt að endurnýja gamlar skólplagnir í elstu hverfum Reykjavíkur en rannsóknir hafa sýnt að sjálfbærar lausnir séu hagkvæmur valkostur,“ bendir Hrund á.

Hrund Ólöf Andradóttir

„Verkefnið snýst um að skoða leiðir til þess að innleiða sjálfbærar regnvatnslausnir í nærumhverfi okkar.“

Hrund Ólöf Andradóttir

Áhugi Hrundar á sjálfbærum regnvatnslausnum kviknaði þegar hún hlýddi á áhugaverða kynningu hjá Sveini Þórólfssyni, prófessor við Norges teknisknaturvitenskapelige universitet (NTNU), á notkun lausnanna annars staðar á Norðurlöndum og í Urriðaholti í Garðabæ. Í samstarfi við nemendur sína og Svein ákvað Hrund að rannsaka hver ávinningurinn væri af því að innleiða slíkar lausnir í rótgrónu hverfi eins og háskólasvæðinu.

„Forrannsóknir nemenda benda til að háskólalóðin sé góður vettvangur til þess að innleiða lausnir á borð við græn þök, tjarnir og svelgi,“ segir Hrund og bendir á að mestallt rigningarvatn á svæðinu fari nú í skólplagnir. Það skapi mikið álag á lagnirnar og hreinsistöðina í Ánanaustum í mikilli hláku og rigningum.

Rannsóknirnar hafa þegar getið af sér tilraunaverkefni þar sem bæði regn- og grunnvatn úr grunninum að Húsi íslenskra fræða er leitt niður í Vatnsmýri þar sem það nýtist til hreinsunar á mýrinni.

Hrund segir enn fremur að áframhaldandi rannsóknir á þessu sviði muni leiða í ljós hversu vel sjálfbærar regnvatnslausnir henti í íslenskri veðráttu og hver ávinningurinn geti orðið hér á landi.