Skip to main content

Nýtt hættumat fyrir eldgos í Eyjum

Þóra Björg Andrésdóttir, MS-nemi við Jarðvísindadeild

„Helgafell í Vestmannaeyjum tók að gjósa í nótt klukkan 02. Í fjallinu myndaðist nálega kílómeters sprunga frá öxlinni austanvert í fjallinu og langleiðina niður í sjó. Mikið hraun rann úr sprungunni, en það rann allt í sjó fram milli Kirkjubæjar og Flugnatanga.“

Þetta blasti við lesendum Morgunblaðsins þann 23. janúar árið 1973 en þá um nóttina hafði jörð opnast í Eyjum með þeim afleiðingum að flytja þurfti alla íbúa Heimaeyjar á brott með hraði. Líklega hafði fáa órað fyrir því að svona gæti farið í Heimaey þar sem rösklega fimm þúsund íbúar voru flestir í fastasvefni. Vegna eldgossins þurftu þeir að yfirgefa heimili sín í ofboði, allir sem einn. Erfitt er að sjá fyrir sér fimm þúsund manns standa með drunur eldfjalls yfir höfði sér og í bjarmanum af gosinu á meðan þeir biðu fars upp á fastalandið. Hættan var auðvitað gríðarleg.
 

Þóra Björg Andrésdóttir

„Þessi rannsókn hjálpar til við skipulag byggðar og við að meta tjónþol samfélaga. Þessi rannsókn er því mjög mikilvæg fyrir samfélögin sem eiga í hlut og í raun fyrir Íslendinga alla.“

Þóra Björg Andrésdóttir

Í Morgunblaðinu er haft eftir Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi strax þarna um morguninn að um hraungos væri að ræða í Heimaey, sem væri að því leyti skárst að menn gætu þá forðað sér undan því. Í ljósi sögunnar, og þeirrar þekkingar sem safnast hefur um eldstöðvar og eðli þeirra hér og víðar, er stöðugt unnið að hættumati til að bæta viðbrögð við mögulegri vá eins og Íslendingar fengu að kynnast í Eyjum fyrir 45 árum. Nú stendur t.d. yfir rannsókn við Háskóla Íslands þar sem unnið er að nýju hættumati vegna hugsanlegra eldgosa í Vestamannaeyjum og á Reykjanesi út frá jarð-, land- og skipulagsfræðilegum gögnum.

„Ég er að nýta gögn sem aðrar rannsóknir hafa þegar fært okkur,“ segir Þóra Björg Andrésdóttir sem vinnur við verkefnið. Hún sameinar ólíkar upplýsingar og greinir þær áfram til að úr verði heildstætt safn sem hjálpar við að meta hættuna ef gýs á nýjan leik í Eyjum og á Reykjanesi. Gosið í Heimaey er það eina sem hefur hreinlega hafist í byggð á Íslandi og Reykjanes er auðvitað eins og allir vita í návígi við mestu þéttbýliskjarna landsins.

Kveikjan að þessari rannsókn Þóru Bjargar varð í samstarfsverkefni Háskóla Íslands, CSIC á Spáni og FCUL í Portúgal í Evrópuverkefni sem nefndist VeTOOLS. „Það snerist um tölfræðilega úrvinnslu gagna við mat á langtímaog skammtímahættu vegna eldgosa á virkum eldfjallaeyjum.“

Að sögn Þóru Bjargar er hættumatið sjálft undirstaða áhættumats og rýmingaráætlana fyrir þau svæði þar sem möguleiki er á eldgosum.

„Þessi rannsókn hjálpar til við skipulag byggðar og við að meta tjónþol samfélaga. Þessi rannsókn er því mjög mikilvæg fyrir samfélögin sem eiga í hlut og í raun fyrir Íslendinga alla. Rannsókn eins og þessi bætir þekkingu okkar á því sem er og var og því sem hugsanlega getur orðið. Rannsóknir bæta almennt skilning okkar og með bættri þekkingu og auknum skilningi getum við svarað spurningum sem auka öryggi okkar og bæta samfélagið.“

Leiðbeinendur: Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, og Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans.