Skip to main content

Möguleikar fjöláttagöngubretta

Anton Örn Ívarsson, MS frá Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild 

Óhætt er að segja að nýjasta tækni og vísindi hafi komið við sögu í lokaverkefni Antons Arnar Ívarssonar í vélaverkfræði vorið 2017 en hann gerði sér lítið fyrir og hannaði grunn að fjöláttagöngubretti. „Brettinu er ætlað að hjálpa til við þróun búnaðar, vestis með skynjurum og ýmsu öðru dóti, sem á að aðstoða blinda að skynja umhverfi sitt,“ segir Anton. Verkefnið var liður í stóru evrópsku rannsóknaverkefni sem vísindamenn Háskóla Íslands leiða og nefnist Sound of Vision en það miðar að því að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt.

Fjöláttagöngubretti eru nú þegar til á markaði en Anton segir að brettið hans hafi verið þróað með þarfir blindra og sjónskertra sérstaklega í huga. „Það var þörf fyrir öruggt umhverfi til þess að þróa vestið og þjálfa einstaklinga í að nota það. Ætlunin er að láta notanda vestisins ganga á brettinu og hafa vestið og brettið tengt við sýndarveruleika þannig að þegar notandinn gengur á brettinu hreyfist persónan hans í sýndarveruleikanum og ef hún er t.d. alveg að fara að ganga á vegg þá lætur vestið notandann vita,“ útskýrir Anton.

Anton Örn Ívarsson

„Tækið væri hægt að nota við rannsóknir, sem krefjast þess að viðfangsefnið sé gangandi eða í kennslu. Í kvikmyndageiranum getur tækið verið notað með „green screen“-tæknibrellum og í afþreyingu mætti nýta það ásamt sýndarveruleikagleraugum með tölvuleikjum og bíómyndum til þess að fara í göngutúr um fjarlæga staði,“

Anton Örn Ívarsson

Anton segist hafa mikinn áhuga á tölvustýrðum vélbúnaði og segir verkefnið hafa verið bæði spennandi og krefjandi. „Ég vann þó aðeins grunnhönnun þar sem ég hannaði vélræna hlutann, framkvæmdi burðarþolsgreiningar og ákvað efni og íhluti ásamt því að meta kostnað við brettið. Það á eftir að hanna ýmislegt fleira. Tækið sem ég hannaði er u.þ.b. 30 fermetrar, rúmlega tvö tonn og kostnaður við efni og íhluti, fyrir utan smíði, var metinn á u.þ.b. þrjár milljónir,“ segir Anton.

Hann bendir jafnframt á að tæki sem þetta nýtist ekki bara blindum og sjónskertum. „Tækið væri hægt að nota við rannsóknir, sem krefjast þess að viðfangsefnið sé gangandi eða í kennslu. Í kvikmyndageiranum getur tækið verið notað með „green screen“-tæknibrellum og í afþreyingu mætti nýta það ásamt sýndarveruleikagleraugum með tölvuleikjum og bíómyndum til þess að fara í göngutúr um fjarlæga staði,“ segir Anton að endingu um þetta spennandi viðfangsefni.

Leiðbeinendur: Rúnar Unnþórsson prófessor og Guðmundur Valur Oddsson dósent, báðir við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.