Skip to main content

Má bjóða þér ólífur og vínber frá sautjándu öld?

Gavin Murray Lucas, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

Nú er unnið að heildstæðu riti um fornleifauppgröft vísindamanna Háskóla Íslands og Fornleifastofnunar Íslands í Skálholti árin 2002 til 2007.

„Þetta verða nokkur bindi sem innihalda greinar frá um það bil 20 ólíkum fræðimönnum. Ritið er enn í vinnslu og það verður ekki gefið út fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári,“ segir Gavin Murray Lucas, prófessor í fornleifafræði, sem er ritstjóri verksins.

Aðspurður um tilefni útgáfunnar svarar Gavin því að vísindamenn hafi þær skyldur að gefa út niðurstöður úr svo stóru og mikilvægu fornleifaverkefni. „Mér finnst þessi staður búa yfir merkri sögu um heldrimannasamfélag á Íslandi seint á sautjándu öld og á þeirri átjándu, sér í lagi um efnisleg gæði hversdagsins.“

Gavin Murray Lucas

Gavin ritstýrir heildstæðu riti um fornleifauppgröft vísindamanna Háskóla Íslands og Fornleifastofnunar Íslands í Skálholti árin 2002 til 2007.

Gavin Murray Lucas

Gavin segir að í bókinni sé verið að skoða neyslu, sjálfsvitund og samfélagsvitund og hvernig þetta birtist í efnismenningunni á þessum tíma.

„Á svæðinu hefur fundist mikið safn hluta, jafnvel munir sem oft varðveitast ekki, en það hafa þeir samt gert eftir að hafa legið öldum saman í jörðinni. Þetta er allt frá innfluttum ólífum og vínberjum til kínversks postulíns. Einnig hafa komið í leitirnar hlutir af svæðinu sjálfu úr daglega lífinu, eins og egg, klæði og ílát úr tré og jafnvel fjaðurpenni. Byggingarnar sjálfar eru merkilega vel varðveittar eins og margir munanna. Í stuttu máli þá veitir gnægð þess sem fannst möguleikann á að segja margar góðar sögur.“

Hverjar eru þessar sögur? „Þú verður bara að bíða og sjá!“

Gavin segir að rannsóknir í fornleifafræði séu mikilvægar fyrir samfélagið á margan hátt, „en mér hefur alltaf fundist einstakur þessi ákveðni fókus og athygli á efnislega hluti sem menn eru alltaf að finna í fornleifauppgreftrinum. Hlutir hafa alltaf fylgt fólki og samfélögum og ég held að við vanmetum sífellt þau áhrif sem hlutir hafa í því að móta líf okkar, hegðun og sögu. Það að við sættum okkur við þetta, sérstaklega út frá langtímasjónarmiði, skiptir öllu máli fyrir framtíðarsýn okkar. Þess vegna er fornleifafræði, sem alla jafna er álitin grein sem fæst við fjarlæga fortíð, í sívaxandi mæli að fást við málefni líðandi dags, um samtíð eða framtíð, eins og loftslagsbreytingar eða endurvinnslu.“