Skip to main content

Kynjaskiptar stjórnunarstöður

Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir, MS frá Viðskiptafræðideild 

„Mín upplifun er sú að mannauðsstjórnun sé mjög kvenlægt stjórnunarstarf og fjármálastjórnun karllægt en markmið rannsóknarinnar var einmitt að athuga hvernig kynjahlutföllum er háttað í þessum tveimur störfum og hvort þau hlutföll hafi eitthvað breyst frá síðustu aldamótum,“ segir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir sem lauk meistaraprófi í mannauðsstjórnun haustið 2017.

Úrtakið í rannsókn Ásthildar Emblu voru fjölmenn fyrirtæki á hinum almenna vinnumarkaði. ,,Með því að skoða ákveðnar stjórnunarstöður, en ekki kynjahlutföll stjórnenda yfir höfuð eins og áður hefur verið gert, fáum við aðra sýn á í hvaða stöðum konum er að fjölga, sem sést ekki eins greinilega ef allar stjórnunarstöður eru settar í sama pott.“

Helstu niðurstöður gefa vísbendingar um að töluverður munur sé á kynjahlutföllum í stöðum fjármálastjóra og mannauðsstjóra hér á landi. Karlar eru í afgerandi meirihluta í stöðu fjármálastjóra og konur eru í meirihluta í stöðu mannauðsstjóra. Frá aldamótum hefur hlutur kvenna í mannauðsstjórnun aukist úr 47% í 67%. Á umræddu tímabili voru aftur á móti aldrei meira en 24% fjármálastjóra konur og að meðaltali voru 87% fjármálastjóra karlar.

,Með því að skoða ákveðnar stjórnunarstöður, en ekki kynjahlutföll stjórnenda yfir höfuð eins og áður hefur verið gert, fáum við aðra sýn á í hvaða stöðum konum er að fjölga, sem sést ekki eins greinilega ef allar stjórnunarstöður eru settar í sama pott.“

Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir

„Ég held að skýringin á þessu gæti verið sú að á seinni árum hefur mun meiri áhersla verið lögð á umönnunarþætti starfsmannastjórnunar en á sínum tíma þegar starfsmannastjórar, þá aðallega karlmenn, sinntu þessum störfum.“ Mannauðsstjórar taki í raun að sér umönnunarhlutverk frekar en fjármálastjórar. Þeir hlúi að fólkinu og sjái um að því líði vel í vinnunni. Þetta séu þættir sem hafi helst verið tengdir við konur og kvenlega eiginleika.

„Með árunum hefur meiri áhersla verið lögð á móðurlegt eðli starfsins, ef svo má segja, en á stjórnun sem áður einkenndist af stigveldi og einræði. Í dag eru mannauðsstjórar frekar í hlutverki leiðtoga en harðstjóra,“ segir Ásthildur Embla að lokum.

Leiðbeinandi: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Viðskiptafræðideild.