Skip to main content

Kregða er krefjandi viðfangsefni

Ólöf Guðrún Sigurðardóttir, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 

„Kregða er lungnasjúkdómur í sauðfé sem hefur náð fótfestu víða um landið á seinni árum. Hann herjar einkum á lömb, veldur hósta og er jafnvel talinn valda vanþrifum og hugsanlegum dauðsföllum á fjalli. Sauðfjárbændur telja að sjúkdómurinn valdi töluverðum afföllum á sínum búum.“ Þannig lýsir Ólöf Guðrún Sigurðardóttir, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sauðfjársjúkdómi sem herjað hefur á íslenskt sauðfé undanfarin ár.

Til þess að bregðast við þessum vágesti í sauðfjárbúum landsins hefur vísindafólk á Keldum stundað rannsóknir á bakteríunni Mycoplasma ovipneumoniae sem veldur sjúkdómnum, meðal annars í því skyni að framleiða bóluefni. Ekkert bóluefni er til á almennum markaði og almennt er ekki bólusett gegn sjúkdómnum í sauðfé. „Helstu tálmanir í þróun kregðubóluefnis eru m.a. hversu erfitt og seinlegt er að rækta bakteríuna auk þess sem mikill breytileiki er á milli stofna hennar,“ segir Ólöf.

Ólöf Guðrún Sigurðardóttir

„Niðurstöður voru þær að ekki var marktækur munur á milli bólusettra og óbólusettra hópa. Einnig kom í ljós við rannsóknina að sjúkdómurinn var ekki mjög tíður og alvarlegur á bænum þetta árið.“

Ólöf Guðrún Sigurðardóttir

Að beiðni sauðfjárbænda og sjálfstætt starfandi dýralæknis ákvað atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að fjármagna framleiðslu á sérsniðnu tilraunabóluefni í Þýskalandi. „Ráðuneytið leitaði síðan til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands um framkvæmd tilraunabólusetningarinnar sem fór fram á einum bæ á Norðurlandi síðastliðið ár. Kindur voru bólusettar nokkru fyrir burð og um haustið voru lungun úr sláturlömbum frá þessum bæ skoðuð m.t.t. kregðubreytinga,“ segir Ólöf.

Í vísindunum skila tilraunir ekki alltaf þeirri niðurstöðu sem vonast er eftir. „Niðurstöður voru þær að ekki var marktækur munur á milli bólusettra og óbólusettra hópa. Einnig kom í ljós við rannsóknina að sjúkdómurinn var ekki mjög tíður og alvarlegur á bænum þetta árið,“ segir Ólöf.

Þessi niðurstaða leiddi til þess að ákveðið var að fara af stað með ítarlegri rannsókn á algengi sjúkdómsins og áhrifum hans á sauðfjárbúum og er sú vinna hafin. Rannsóknin er samstarfsverkefni Tilraunastöðvarinnar á Keldum, Landbúnaðarháskóla Íslands og Matvælastofnunar en verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar.