Skip to main content

Jógúrt úr Stoðmjólk

Elva Björk Traustadóttir, MS frá Matvæla- og næringarfræðideild

„Hugmyndina að þessari rannsókn fékk ég þegar eldri sonur minn var rúmlega hálfs árs og farinn að borða nokkuð fjölbreyttan mat. Mér fannst vanta meiri fjölbreytni í vöruúrval af barnamat á íslenskum markaði og þá sérstaklega jógúrtafurðir fyrir börn,“ segir Elva Björk Traustadóttir. Hún bætti úr þessum skorti á jógúrtvörum í meistaraverkefni sínu í matvælafræði og þróaði slíka afurð úr Stoðmjólk sem er ætluð börnum frá 7 til 24 mánaða aldurs.

Í verkefninu tengdi Elva saman tvær fræðigreinar, matvælafræði og næringarfræði, en um var að ræða samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Mjólkursamsölunnar sem hefur um árabil framleitt Stoðmjólk fyrir ung börn. Rannsóknin naut m.a. stuðnings frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.
 

Elva Björk Traustadóttir

„Helstu niðurstöður voru þær að það er greinilega áhugi á mjólkurafurð sem er sérstaklega framleidd með þarfir ungra barna í huga“

Elva Björk Traustadóttir

Áður en Elva hófst handa við þróunina kannaði hún viðhorf foreldra yfir 300 ungra barna til tilbúins barnamatar. „Helstu niðurstöður voru þær að það er greinilega áhugi á mjólkurafurð sem er sérstaklega framleidd með þarfir ungra barna í huga,“ segir Elva og bendir á að hefðbundin jógúrt og aðrar sýrðar mjólkurafurðir séu ekki ráðlagðar börnum yngri en eins árs sökum þess hve próteinríkar þær eru. „Ég hafði tekið eftir því í mömmuhópunum, sem ég var í, að margar mæður voru farnar að gefa börnunum sínum jógúrt og skyr fyrir eins árs aldur og því fannst mér þörf á nýrri jógúrtafurð sem væri framleidd sérstaklega með þarfir ungra barna í huga.“

Í lokaverkefninu þróaði Elva jógúrtafurðir úr Stoðmjólk og venjulegri hreinni jógúrt með aðstoð sérfræðinga Matvæla- og næringarfræðideildar og Mjólkursamsölunnar. „Niðurstöður úr tilraunum bentu til þess að það sé hægt að sýra Stoðmjólk en þar sem hún er svo próteinsnauð er þörf á þykkingarefnum, eins og trefjum og sterkju, til þess að bæta áferð hennar,“ bætir Elva við.

Elva segir rannsóknina undirstrika að spurn sé eftir vöru sem þessari. „Ef jógúrtafurðin kæmi á markað gæti hún aukið fjölbreytni í mataræði ungra barna og jafnframt væri hún eini ferski barnamaturinn á íslenskum markaði,“ bendir hún á að lokum. Leiðbeinendur: María Guðjónsdóttir dósent og Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor, báðar við Matvæla- og næringarfræðideild.