Skip to main content

Jarðskjálftahreyfingar í þéttbýli

Sahar Rahpeyma, doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild 

Íslendingar þekkja vel þá ógn sem bæði mönnum og mannvirkjum stafar af jarðskjálftum og hafa til að mynda verið minntir á það nokkrum sinnum á þessari öld. Þessa hættu þekkir Sahar Rahpeyma, doktorsnemi í byggingarverkfræði, einnig vel enda alin upp á einu virkasta jarðskjálftasvæði í heimi, Íran.

„Íran liggur á mótum margra stórra misgengja og þar hafa orðið jarðskjálftar sem hafa valdið miklu manntjóni og slysum á fólki og umfangsmiklum skemmdum á mannvirkjum. Þrátt fyrir að það sé ómögulegt að koma í veg fyrir jarðskjálfta getum við dregið úr jarðskjálftavá með því að auka þekkingu okkar á einkennum jarðskjálftahreyfinga,“ segir hún.

Sahar Rahpeyma

„Íran liggur á mótum margra stórra misgengja og þar hafa orðið jarðskjálftar sem hafa valdið miklu manntjóni og slysum á fólki og umfangsmiklum skemmdum á mannvirkjum."

Sahar Rahpeyma

Það eru þessar hreyfingar og tengsl þeirra við efstu jarðlögin, sem eru meginviðfangsefni Sahar í doktorsrannsókn hennar við Háskóla Íslands. „Almennt má lýsa jarðskjálftahreyfingu á tilteknum stað sem samanlögðum áhrifum jarðskjálftaupptaka, leið jarðskjálftabylgjunnar í gegnum jarðskorpuna og staðbundinna áhrifa í efstu jarðlögunum. Efstu jarðlögin geta virkað sem sía á jarðskjálftabylgjur og ýmist magnað eða dempað hreyfingarnar á ákveðinni tíðni áður en þær berast upp á yfirborðið. Þess vegna hefur uppbygging jarðvegsgrunnsins mikil áhrif á hversu mikið jörðin skelfur á tilteknum stað og þar af leiðandi á skemmdir á mannvirkjum á þeim stað,“ bendir Sahar á.

Í rannsókninni beinir Sahar sjónum sínum að jarðskjálftahreyfingum í þéttbýli hér á landi. Hún segir að almennt hafi verið litið svo á að vegna þess hve yfirborð berggrunns og hrauns á Íslandi er einsleitt hafi staðaráhrif jarðskjálftahreyfinga hér á landi verið talin hverfandi, en þó ekki rannsökuð nægjanlega. Tilraunir hennar og samstarfsfólks, þar sem stuðst var við bæði líkön og tölfræðiútreikninga, bendi hins vegar til að þar sem uppbygging jarðvegsgrunnsins sé flókin hér á landi séu staðbundin áhrif jarðskjálftahreyfinga áberandi. „Niðurstöður þessa verkefnis eru afar mikilvægar því þær geta stuðlað að bættri hönnun mannvirkja, betra skipulagi þéttbýlis og áreiðanlegra hættumati í tengslum við jarðskjálfta.“

Leiðbeinandi: Benedikt Halldórsson, vísindamaður við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild og forstöðumaður rannsókna við Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftafræði.