Skip to main content

Íslenskt afrekssundfólk sefur afar lítið

Íslenskt afrekssundfólk sefur afar lítið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslendingar hafa um áratugabil átt sundfólk í fremstu röð, fólk sem komist hefur í úrslit og á verðlaunapalla á stórmótum og vakið verðskuldaða athygli fyrir frammstöðu sína. Slík afrek krefjast gríðarlegrar þjálfunar, æfinga kvölds og morgna, og til þess að hámarka afköst og hlúa að heilsu íþróttafólksins til lengri og skemmri tíma þarf að huga að fleiri þáttum, þar á meðal mataræði og hvíld. Vísbendingar eru um að töluvert vanti upp á síðastnefnda þáttinn hjá ungu íslensku afrekssundfólki því samkvæmt nýrri rannsókn sem Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, hefur unnið sefur hópurinn að meðaltali um sex og hálfa klukkustund á nóttu og enn skemur á þeim dögum þar sem morgunæfingar fara fram.

Sigríður Lára hefur ásamt hópi fræðimanna og doktorsnema í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sinnt rannsóknum á heilsu og líðan ungmenna á Íslandi. Aðspurð segir hún ýmsa þætti hafa kveikt áhugann á þessu tiltekna viðfangsefni. „Fyrir það fyrsta sýndu rannsóknir okkar í íþrótta- og heilsufræði við HÍ að íslensk ungmenni sváfu almennt fremur lítið. Í öðru lagi teljum við að svefn sé eitt af því sem getur haft áhrif á afkastagetu og frammistöðu íþróttafólks. Í þriðja lagi voru vísbendingar í fyrri rannsóknum um að íþróttafólk í einstaklingsgreinum sem stundaði morgunæfingar væri í sérstökum áhættuhópi þegar kæmi að nægum svefni,“ segir hún en undirstrikar að afar fáar og takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á svefni afrekssundfólks, ef undan eru skildar rannsóknir á litlum hópum afreksfólks m.a. í Bretlandi og Ástralíu. Hennar eigin reynsla var jafnframt innblástur að rannsóknarverkefninu en Sigríður Lára segist sjálf hafa verið svefnvana sundkona sem unglingur „og síðar sundmamma sem vaknaði til að keyra unglinginn á morgunæfingar. Ég fór að velta því fyrir mér hversu miklum svefni þessi hópur nær í raun þegar þau eru á æfingum á kvöldin og eru svo mætt aftur í laugina, kannski kl. 5.30 að morgni.“ 

Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, hefur rannskað svefn ungs afreksfólks í sundi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fimm tíma svefn fyrir morgunæfingar

Rannsóknin, sem unnin var í góðu samstarfi við sundsamfélagið hér á landi, fólst í því að mæla svefn hjá afrekssundfólki með svokölluðum hröðunarmælum sem þátttakendur báru á úlnlið í heila viku. Alls tóku 108 sundmenn á aldrinum 10-24 ára þátt í rannsókninni og reyndust niðurstöðurnar sláandi. „Að meðaltali svaf sundfólkið um 6 og hálfa klukkustund á nóttu yfir vikuna en næturnar fyrir morgunæfingar var svefntíminn um 5 klukkustundir hjá þeim sem voru 16 ára og eldri og 6 og hálf klukkustund hjá þeim sem voru yngri en 16 ára. Breytileiki í svefntíma milli nótta var líka mikill hjá þeim sem stunduðu morgunæfingar en við vitum að það getur haft slæm áhrif á líðan og heilsu,“ segir Sigríður Lára um niðurstöður sínar sem birtust í vísindatímaritinu Pediatric Exercise Science á síðasta ári.

Hún segir afar mikilvægt að rannsaka heilsu og líðan ungs afreksíþróttfólks, sem æfir oft jafnmikið og þeir allra, allra bestu í greinunum í heiminum, til þess að geta stutt vel við bakið á því. „Fyrir sundsamfélagið eru þetta mikilvægar upplýsingar því hér er tækifæri (sem er meira að segja ókeypis, vel aðgengilegt og afskaplega þægilegt!) til að hafa jákvæð áhrif á frammistöðu og líðan unga fólksins. Heilbrigðisnefnd Alþjóða Ólympíusambandsins leggur áherslu á að svefn sé ein af grunnstoðum í lífi ungra afreksíþróttamanna og við sem stöndum að þeim sem foreldrar, þjálfarar og aðrir þurfum að hjálpa þeim að skapa umhverfi sem styður við góðar svefnvenjur,“ segir Sigríður Lára. 

Hún bætir að lokum við að afar áhugavert væri að gera frekari rannsóknir með íhlutun með afrekshópnum þar sem unnið yrði að því að því að bæta svefn hópsins og kanna hvaða áhrif það hefði á afkastagetu. Það gæti stuðlað að enn betri árangri íslensks sundfólks.