Skip to main content

Ísland og innleiðingarhallinn gagnvart EES

Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi við Lagadeild 

EES-samningurinn er einn allra mikilvægasti alþjóðasamningur sem Íslendingar eru aðilar að. Í rannsóknum sínum beinir Margrét Einarsdóttir, doktorsnemi í lögfræði, sjónum sínum að framkvæmd hans á Íslandi og einkum að því „að greina hvaða þættir valda því að framkvæmd samningsins gengur ekki betur en raun ber vitni hér á landi,“ segir Margét.

Á undanförnum árum hefur framkvæmd samningsins gengið illa og Ísland er með mesta innleiðingarhallann á reglum í Evrópu af öllum aðildarríkjum hans. „Sem sérfræðingi og háskólakennara í EES-rétti fannst mér rétt að leggja mitt af mörkum til að bæta framkvæmd samningsins. Ég átti sæti í stjórn Fjármálaeftirlitsins á árunum 2012-2104 og sá þá hversu mikil vandamál það skapaði að ekki var unnt að taka afar umfangsmikla löggjöf Evrópusambandsins á sviði eftirlits með fjármálamörkuðum upp í EESsamninginn,“ bætir Margrét við.

Margrét Einarsdóttir

„Markmið mitt er að stuðla að bættri framkvæmd EES-samningsins og ég hef unnið með stýrihóp á vegum forsætisráðuneytisins sem hefur það hlutverk að benda á leiðir til að ná því marki."

Margrét Einarsdóttir

Það eru margvíslegar ástæður fyrir þessum vanda, segir Margrét, og útilokað að gera þeim fullnægjandi skil í stuttu máli. „Við erum t.a.m. með afar þungt og tafsamt ferli við upptöku ESB-gerða í EES-samninginn auk þess sem skortur á heimild í íslensku stjórnarskránni að heimila framsal valds til alþjóðlegra stofnana hefur valdið verulegum vandamálum við framkvæmd samningsins.“

Engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar áður á Íslandi þannig að nýnæmi rannsóknarinnar er mikið. „Markmið mitt er að stuðla að bættri framkvæmd EES-samningsins og ég hef unnið með stýrihóp á vegum forsætisráðuneytisins sem hefur það hlutverk að benda á leiðir til að ná því marki. Þá hef ég kynnt niðurstöður rannsóknar minnar t.a.m. fyrir utanríkismálanefnd Alþingis og í Stjórnarráðsskólanum,“ segir Margrét að lokum, sem hefur fengið afar jákvæð viðbrögð við rannsóknum sínum.

Leiðbeinandi: Elvira Mendez Pinedo, prófessor við Lagadeild.