Ísland fyrirmyndarríki í jafnréttismálum | Háskóli Íslands Skip to main content

Ísland fyrirmyndarríki í jafnréttismálum

Áslaug Karen Jóhannsdóttir, MA frá Stjórnmálafræðideild

„Rannsóknin mín fjallar um stöðu Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi. Í stuttu máli langaði mig til þess að kanna hvaða vægi Ísland, sem smáríki, hefði í þessum málaflokki í alþjóðlegu tilliti. Til þess að komast að því tók ég viðtöl við fimm fulltrúa Íslands, sem eiga það sameiginlegt að hafa unnið að jafnréttismálum á alþjóðlegum vettvangi fyrir Íslands hönd, á vegum utanríkisráðuneytisins, í sendinefndum og á vettvangi alþjóðastofnana svo eitthvað sé nefnt.“

Þetta segir Áslaug Karen Jóhannsdóttir sem lauk meistaraprófi í alþjóðasamskiptum vorið 2014. Hugmyndina að rannsókninni fékk Áslaug í náminu þar sem hún tók meðal annars fjarnámsáfangann Gender and Global Politics sem kenndur var í samstarfi við Rutgers-háskólann í Newark í Bandaríkjunum.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir

„Rannsóknin mín fjallar um stöðu Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi. Í stuttu máli langaði mig til þess að kanna hvaða vægi Ísland, sem smáríki, hefði í þessum málaflokki í alþjóðlegu tilliti.“

Áslaug Karen Jóhannsdóttir

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög afgerandi en viðmælendur mínir voru allir sammála um að Ísland væri sannkallað fyrirmyndarríki þegar kemur að jafnréttismálum. Framlag okkar felist fyrst og fremst í því að vera frumkvöðull og fyrirmynd í málaflokknum. Fulltrúar Íslands hafi áþreifanleg dæmi úr íslenskum veruleika sem þeir nota í alþjóðlegu jafnréttisstarfi. Þeir finna jafnframt vel fyrir því að Ísland hefur trúverðuga og sterka alþjóðlega rödd í þessum málaflokki,“ segir Áslaug.

„Viðmælendur mínir sögðust stundum upplifa Ísland sem ósköp smátt ríki í alþjóðlegu samhengi en aldrei í þessum málaflokki. Þar geti fulltrúar Íslands talað af algjörri festu og sjálfstrausti. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta að Ísland hefur afar sterka alþjóðlega stöðu í jafnréttismálum sem veitir ríkinu einstök tækifæri til sóknar í öllu alþjóðastarfi. Fulltrúar Íslands nýta sér þetta meðal annars til þess að beita sér fyrir valdeflingu kvenna, kynjasamþættingu og mannréttindum kvenna um allan heim,“ segir Áslaug Karen að lokum.

Leiðbeinandi: Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild.

Netspjall