Skip to main content

Hversu mikið koldíoxíð má binda í bergi?

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi við Jarðvísindadeild

„Loftslagsbreytingar eru ein stærsta vá okkar tíma og við þurfum að bregðast við hækkuðum styrk koldíoxíðs í andrúmslofti með öllum tiltækum ráðum. Kolefnisbinding í basalti er ein af þeim aðferðum sem hægt væri að nýta í þeirri baráttu,“ segir Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi í jarðfræði, sem vill leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni í gegnum heimsþekkt verkefni.

„Doktorsverkefnið mitt er hluti af CarbFixverkefninu sem sett var á laggirnar árið 2007 af Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Rannsóknaráðinu í Toulouse í Frakklandi og Columbia-háskóla í New York til að meta fýsileika þess að binda koldíoxíð sem karbónatsteindir í basalti í þeim tilgangi að draga úr áhrifum þess á loftslag,“ útskýrir hún.

Sandra segir náttúru og umhverfismál alltaf hafa verið sér hugleikin og að hún hafi orðið heilluð af CarbFix-verkefninu þegar hún heyrði fyrst af því. „Nokkrum árum eftir að verkefnið hófst var mig farið að langa að breyta til og um svipað leyti var auglýst eftir doktorsnema í verkefninu svo ég sló til,“ segir hún um tildrög þess að hún kom að verkefninu.

Doktorsrannsókn Söndru snýr að bindimöguleikum koldíoxíðsins í basalti. „Annars vegar hef ég metið hversu mikið koldíoxíð er fræðilega hægt að binda, bæði á Íslandi og einnig í úthafshryggjunum – en stærstur hluti basalts á jörðinni þekur hafsbotninn. Hins vegar hef ég skilgreint með hjálp efnagreininga og líkanareikninga þau ferli sem eiga sér stað við fyrstu niðurdælingartilraunirnar sem framkvæmdar voru á Hellisheiði, bæði hversu mikið af því koldíoxíði sem dælt var niður hefur bundist í steindir og líka hvaða steindir eru að myndast við mismunandi aðstæður í kerfinu,“ segir Sandra.

„Annars vegar hef ég metið hversu mikið koldíoxíð er fræðilega hægt að binda, bæði á Íslandi og einnig í úthafshryggjunum – en stærstur hluti basalts á jörðinni þekur hafsbotninn. Hins vegar hef ég skilgreint með hjálp efnagreininga og líkanareikninga þau ferli sem eiga sér stað við fyrstu niðurdælingartilraunirnar sem framkvæmdar voru á Hellisheiði, bæði hversu mikið af því koldíoxíði sem dælt var niður hefur bundist í steindir og líka hvaða steindir eru að myndast við mismunandi aðstæður í kerfinu.“

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir

Fyrstu niðurstöður CarbFix-verkefnisins lofa sannarlega góðu en þær sýna að langstærstur hluti þess koldíoxíðs sem dælt er niður binst basaltinu á um það bil tveimur árum en ekki þúsundum ára eins og áður var talið. Greint var frá niðurstöðunum í hinu virta vísindatímariti Science um mitt ár 2016 og átti Sandra stóran þátt í þeirri grein. Niðurstöðurnar vöktu heimsathygli enda vakna með þeim vonir um að verkefnið muni, þegar fram líða stundir, færa mönnum nýtt vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar.

„Niðurstöðurnar sem liggja fyrir fóru fram úr okkar björtustu vonum en það er til marks um velgengni verkefnisins að það hefur farið af hugmyndastigi í að vera í fullri nýtingu í Hellisheiðarvirkjun á innan við áratug,“ segir Sandra.

Sandra lauk doktorsprófi frá Jarðvísindadeild árið 2017.

Leiðbeinandi: Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans