Skip to main content

Hvers vegna eru svo fáar stelpur í Gettu betur?

Inga Þóra Ingvarsdóttir, M.Ed. frá Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Mig langaði til að varpa ljósi á það af hverju stúlkur hafa síður tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur,“ segir Inga Þóra Ingvarsdóttir sem lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræði vorið 2016. Rannsókn hennar fólst í að orðræðugreina umfjöllun um spurningakeppnina í skólablöðum ákveðinna framhaldsskóla og að greina á sama hátt viðtöl við nokkra kvenkyns fyrrverandi keppendur. „Kveikjan var mín eigin þátttaka í Gettu betur. Ég vildi vinna lokaverkefnið mitt út frá einhverju sem tengdist jafnrétti og þá lá það vel við að taka fyrir þetta umfjöllunarefni,“ segir Inga Þóra.

Niðurstöður liggja fyrir og þar gætir ýmissa þrástefja í umfjöllun skólablaðanna. „Mikið er talað um „strákana okkar“ þegar talað er um liðin, Menntaskólann í Reykjavík og árangur þeirra í keppni og hversu mikil gáfnaljós Gettu betur keppendur eru. Þrástefin eru sum karllæg og geta verið skýring á því af hverju stúlkur hefur vantað í keppnina,“ segir hún.

Inga Þóra Ingvarsdóttir

„Þær konur sem ég ræddi við og höfðu tekið þátt í keppninni höfðu blendnar tilfinningar til þess að vera stimplaðar sem gáfnaljós þótt þær hafi fengið jákvæð viðbrögð í sínum skólum við þátttöku í keppninni.“

Inga Þóra Ingvarsdóttir

Þá segir Inga Þóra nokkra þöggun ríkja um stúlkur í Gettu betur í umfjöllun skólablaðanna. „Þær konur sem ég ræddi við og höfðu tekið þátt í keppninni höfðu blendnar tilfinningar til þess að vera stimplaðar sem gáfnaljós þótt þær hafi fengið jákvæð viðbrögð í sínum skólum við þátttöku í keppninni. Einnig samsama þær sig ekki ríkjandi hugmyndum um kvenleika,“ segir Inga enn fremur um niðurstöður rannsóknarinnar.

„Rannsóknin er vonandi þörf viðbót við þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar á íslenskum ungmennum á framhaldsskólaaldri og þátttöku þeirra í félagslífi á djúptæku mótunartímabili í lífi þeirra þar sem afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar,“ segir Inga Þóra að lokum um þýðingu rannsóknarinnar.

Leiðbeinandi: Annadís Gréta Rudolfsdóttir, dósent við Uppeldis- og menntunarfræðideild.