Hvað leynist í grunnvatninu? | Háskóli Íslands Skip to main content

Hvað leynist í grunnvatninu?

Agnes-Katharina Kreiling, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Fána hins íslenska ferskvatns hefur lítið verið rannsökuð, ekki síst grunnvatnið. Það er skemmtilegt og krefjandi að vinna við rannsóknir á kerfi sem gæti leitt til óvæntra vísindalegra uppgötvana, þar á meðal að finna tegundir hryggleysingja sem ekki hafa verið greindar áður á Íslandi,“ segir Agnes-Katharina Kreiling, doktorsnemi í líffræði, þar sem hún situr við rannsóknir í fyrrverandi húsakynnum Veiðimálastofnunar í Keldnaholti.

Agnes rannsakar í doktorsnámi sínu fjölbreytileika hryggleysingja í köldum og heitum ferskvatnsuppsprettum á Íslandi og kannar m.a. hvaða áhrif umhverfisþættir eins og hiti, tegund uppsprettu og staðsetning hafa á tegundasamsetningu á hverjum stað. „Ég vonast til að varpa ljósi á það hvaða þættir hafa áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika á þessum svæðum og hvernig tegundasamsetningu er háttað í ferskvatnskerfum, bæði á yfirborði og í grunnvatni.“
 

Agnes-Katharina Kreiling

„Ég hef safnað sýnum á 49 stöðum á Íslandi, m.a. við Mývatn, Hengil, í Skagafirði, Borgarfirði, á Vestfjörðum, Suðurlandi og jafnvel á hálendinu.“

Agnes-Katharina Kreiling

Agnes er þýsk en búsett í Skagafirði og vinnur stærstan hluta rannsóknanna í húsakynnum Háskólans á Hólum. Hún segist njóta þess að vinna að verkefninu enda þurfi hún að beita fjölbreyttum vísindaaðferðum, þar á meðal erfðafræðilegum rannsóknum á tilraunastofum og tegundagreiningu í smásjá. Best segir hún þó að hafa fengið að kynnast Íslandi í gegnum yfirgripsmiklar vettvangsrannsóknir víða um land. „Ég hef safnað sýnum á 49 stöðum á Íslandi, m.a. við Mývatn, Hengil, í Skagafirði, Borgarfirði, á Vestfjörðum, Suðurlandi og jafnvel á hálendinu. Ég hef mikinn áhuga á vistfræði búsvæða sem eru jafndreifð og uppspretturnar og mér finnst gaman að greina skordýr og hryggleysingja,“ segir hún.

Aðspurð segir Agnes tímafrekt að greina hryggleysingja og því eigi hún nokkuð í land með verkefnið. „Fyrstu niðurstöður benda þó til þess að mýlirfur, árfætlur og skelkrebbi séu algengustu hryggleysingjahóparnir í grunnvatni hér á landi. Hitastig vatnsins ræður einnig miklu um samsetningu tegunda á hverjum stað og svo virðist sem fjölbreytileikinn aukist eftir því sem hitinn hækkar. Íslenskar lindir geyma fjölbreytta og oft afar sérhæfða hryggleysingjafánu,“ bætir hún við.

Rannsóknirnar eru að sögn Agnesar afar mikilvægar í ljósi vaxandi ásóknar í lindir og grunnvatn og ásókn ferðamanna í heitar uppsprettur og laugar víða um land. „Til þess að geta lagt fram áætlanir um varðveislu viðkvæmra heimkynna hryggleysingja þurfum við fyrst að átta okkur á hvernig samsetning þeirra er,“ segir hún.

Leibeinendur: Árni Einarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum, Jón S. Ólafsson, sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun, og Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild.