Skip to main content

Hvað hindrar ábyrga hegðun í umhverfismálum?

Erla Hlín Helgadóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, og Ragna B. Garðarsdóttir, lektor við Sálfræðideild

„Mér þykir það verðugt og aðkallandi verkefni að rannsaka hvers vegna við bregðumst ekki við umhverfisvandanum á ábyrgari hátt en raun ber vitni. Nú hafa til dæmis Sameinuðu þjóðirnar ályktað að umhverfisvandinn sé stærsti vandi sem mannkyn hefur staðið frammi fyrir,“ segir Ragna B. Garðarsdóttir, lektor í sálfræði. Hún vinnur nú ásamt Erlu Hlín Helgadóttur, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, að því að hanna spurningalista sem nota á til að meta hugsanavillur og skekkjur sem hindra ábyrga afstöðu í umhverfismálum eða svokallaða ábyrga umhverfishegðun. „Ég vann BS-verkefnið mitt í sálfræði undir handleiðslu Rögnu og hafði mikinn áhuga á því að vinna áfram með henni. Hegðun mannsins er spennandi viðfangsefni og þessar rannsóknir sameina á áhugaverðan hátt sálfræði og umhverfisfræði,“ segir Erla Hlín.

Ragna Benedikta og Erla Hlín 

„Mér þykir það verðugt og aðkallandi verkefni að rannsaka hvers vegna við bregðumst ekki við umhverfisvandanum á ábyrgari hátt en raun ber vitni.“

Ragna Benedikta og Erla Hlín

Ragna segir að hugsanavillur sem lýsa sér í því að fólk bægir frá sér vanda sem blasir við hafi stundum verið kallaðar sálfræðilegar hindranir. „Mannleg hugsun er uppfull af skekkjum sem gera manninum kleift að bægja frá sér erfiðum og ógnandi upplýsingum. Oft kemur þetta sér vel fyrir einstaklinginn, verndar hann á vissan hátt, en getur einnig leitt til þess að hann bregst ekki við ógn sem að honum steðjar, eins og við sáum til dæmis í aðdraganda efnahagshrunsins. Við stöndum nú frammi fyrir miklu alvarlegra hruni, sem er hrun vistkerfa, og samt er einhver tregða í einstaklingum að reyna að afstýra því.“

Ragna segir að framtíðarkynslóðir eigi eftir að velta því fyrir sér hvers vegna okkar kynslóð hafi ekki gripið í taumana þegar hættumerkin blöstu við. Ragna segir að árið 2009 hafi faghópur bandaríska sálfræðingafélagsins tekið saman yfirlit um hvaða hindranir kunni helstar að koma í veg fyrir ábyrga umhverfishegðun og kölluðu eftir rannsóknum á þessum hindrunum. „Ég bjóst við því að einhverjir hefðu hlýtt þessu kalli og búið til mælitæki sem ég gæti notað í rannsóknir mínar á neysluhegðun og umhverfisvanda en greip í tómt. Þess vegna ákvað ég að búa sjálf til spurningalista og fékk Erlu Hlín til þess að bera meginábyrgð á verkinu.“

Sú vinna hófst sem nýsköpunarsjóðsverkefni en mun halda áfram sem hluti af meistaraverkefni Erlu Hlínar í umhverfis- og auðlindafræði, undir leiðsögn Rögnu.

„Niðurstöður rannsókna með þessu mælitæki,“ segir Ragna „hafa vonandi bæði hagnýtan og fræðilegan ávinning. Með þekkingu á sértækum hindrunum geta inngrip til þess að breyta hegðun einstaklinga orðið hnitmiðaðri og stefnumótun markvissari og ekki er vanþörf á því hérlendis. Ólíkt því sem margir Íslendingar vilja trúa er vistspor Íslendinga með því hæsta í heiminum. Til þess að þróun geti orðið sjálfbær þarf því hegðun okkar að breytast svo að um munar.“