Skip to main content

Hnúfubakar í veiðarfærum

Charla Jean Basran, doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

Meira en 40 prósent af íslenskum hnúfubökum hafa einhvern tímann á lífsleiðinni flækt sig í veiðarfæri fiskiskipa hér við land. Þetta sýna bráðabirgðaniðurstöður í rannsókn Chörlu Jean Basran en hún stundar nú doktorsnám við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík.

„Við vonumst til að endanlegar niðurstöður verkefnisins gefi nákvæma mynd af því hversu mikill fjöldi hvala er að flækja sig í veiðarfærum við Íslandsstrendur og hversu alvarlegir áverkarnir eru á dýrunum. Okkur fýsir einnig að vita hvaða áhrif þetta hefur á lífsgæði hvalanna og sömuleiðis á fiskveiðar við landið. Við viljum þannig meta áhrifin á iðnaðinn en líka finna aðferðir til að draga úr þessum atvikum sem gagnast þá bæði lífríkinu og atvinnulífinu.“

Aðferðirnar sem Charla hefur notað til að fá upplýsingar um ástand hnúfubaka við landið helgast af ljósmyndum sem sjómenn hafa tekið og sömuleiðis almenningur í hvalaskoðunarferðum eða í siglingum við strendur landsins. Hún hefur hvatt fólk til að hlaða eigin myndum af hnúfubökum inn á tiltekna slóð á netinu eða með því að senda sér slíkar ljósmyndir í tölvupósti. Fjölmargir hafa svarað kallinu og hefur Charla fengið þúsundir ljósmynda til að vinna úr. Hún nýtir sér einnig fréttir í fjölmiðlum um óhöpp af þessum toga og hefur auk þess lagt skoðanakönnun fyrir hóp sjómanna.

Charla Jean Basran

„Hvalir höfða bæði til vísindamanna og almennings því þeir eru aðlaðandi spendýr sem geta sagt okkur svo mikið um ástand sjávar og áhrifin sem við mennirnir höfum á bæði hvalina sjálfa og sjávarauðlindina.

Charla Jean Basran

Charla segir að fjöldi hvala verði fyrir áverkum í heimshöfunum af völdum veiðarfæra á ári hverju og dauðsföll séu þekkt af þeim sökum. Ekki sé þó unnt að kasta tölu á slíkt nema með auknum rannsóknum. Hún segir að hnúfubakarnir á Íslandsmiðum flækist í alls konar veiðarfæri en auðvitað sé markmiðið að finna út hvaða tegund veiðarfæra komi við sögu í flestum tilvikum.

Charla segist hafa valið þetta tiltekna verkefni sökum áhuga síns á sjávarspendýrum auk þess sem hún hafi mikinn áhuga á sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar. „Hvalir höfða bæði til vísindamanna og almennings því þeir eru aðlaðandi spendýr sem geta sagt okkur svo mikið um ástand sjávar og áhrifin sem við mennirnir höfum á bæði hvalina sjálfa og sjávarauðlindina. Hvalir eru líka greindir og mjög félagslyndir sem gerir það að verkum að við eigum auðvelt með að finna tengsl milli okkar og þeirra.“

Charla er heilluð af rannsóknum en hún segir að vísindin séu almennt gríðarlega gagnleg til að hafa stjórn á auðlindum okkar. „Rannsóknir gera okkur kleift að skilja heiminn betur og taka þannig upplýstar ákvarðanir um gjörðir okkar og átta okkur á þeim afleiðingum sem þær kunna að hafa.“

Leiðbeinandi: Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.

Tengt efni