Skip to main content

HM í fótbolta snýst ekki bara um fótbolta

Nemendur í knattspyrnu

Viðar Halldórsson, dósent við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild

„Þegar Íslendingar eru að keppa fyrir okkar hönd á alþjóðavettvangi þá fylkjast allir á bak við þá og taka þátt í stemningunni,“ segir Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem vinnur nú að rannsókninni „Ísland á HM - áhugi og upplifun íslensku þjóðarinnar“. Viðar kannaði viðhorf og áhuga Íslendinga á karlalandsliði Íslands þegar það vann sér þátttökurétt í lokakeppni HM í fótbolta í Rússlandi sumarið 2018. 

Niðurstöður Viðars benda til þess að keppnin hafi mjög jákvæð áhrif fyrir einstaklinga og samfélag. „Íslendingar fundu fyrir þjóðarstolti og sumir gleymdu áhyggjum sínum,“ segir Viðar. Fram kemur í rannsókn hans að 91% þjóðarinnar hafi fylgst með leikjum íslenska karlalandsliðsins. „Öllu öðru var ýtt til hliðar og samfélagið snerist um þetta,“ segir Viðar og nefnir að meðal annars hafi sumum vinnustöðum verið lokað fyrr svo fólk gæti horft á leikina. Hann bendir jafnframt á að áhuginn fyrir keppninni hafi verið þvert á kyn, búsetu, stétt og stöðu. Þá endurspegli áhuginn á stórmótum ekki endilega áhuga fólks á fótbolta. „Stór hluti þeirra sem farið hefur á stórmót í knattspyrnu á síðustu árum hefur ekkert sérstaklega áhuga á knattspyrnu.“ 

Viðar hefur um árabil rannsakað hvað skýri góðan árangur íslenskra landsliða í ýmsum íþróttagreinum á stórmótum. Hann segir sérstöðu íslenskra íþróttaliða vera að þau byggi fyrst og fremst á stemningu, liðsheild, baráttu og þjóðarstolti. „Algengt er að leikmenn úr liðunum sem við keppum við séu aldir upp í afreksumhverfi. Þeir hugsa meira um laun og líta á þetta sem atvinnu frekar en leik,“ segir Viðar og telur að smæð samfélagsins spili stórt hlutverk í velgengni Íslendinga í íþróttum. 

Fram kemur í rannsókn Viðars að 91% þjóðarinnar hafi fylgst með leikjum íslenska karlalandsliðsins. „Öllu öðru var ýtt til hliðar og samfélagið snerist um þetta,“ segir Viðar og nefnir að meðal annars hafi sumum vinnustöðum verið lokað fyrr svo fólk gæti horft á leikina. Hann bendir jafnframt á að áhuginn fyrir keppninni hafi verið þvert á kyn, búsetu, stétt og stöðu.

Viðar Halldórsson

Hann leggur þó áherslu á að Íslendingar séu ekkert merkilegri eða betri en aðrir þrátt fyrir þennan árangur. „Það eru margir hlutir sem koma saman á sama tíma sem hjálpa okkur að ná árangri núna,“ segir Viðar. „Það er stundum þunn lína á milli uppbyggilegs þjóðarstolts og skaðlegrar þjóðerniskenndar.“ 56% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sögðu Íslendinga hafa fundið fyrir þjóðrembingi í kjölfar árángursins á HM. „Við þurfum að passa okkur á þessu,“ segir Viðar.

Sjálfur hefur Viðar mikinn áhuga á boltaíþróttum og hefur sérhæft sig í félagsfræðum íþrótta. „Við erum á hápunkti íslenskrar íþróttasögu. Ég er akkúrat í miðjunni á þessari sögu og gríp boltann á lofti,“ segir Viðar um rannsóknir sínar. 

Hann hefur áður fjallað um velgengni íþróttaliða á Íslandi og gaf meðal annars út bókina „Sport in Iceland: How Small Nations Achieve International Success“ árið 2017.

Aðspurður með hvaða liði hann héldi í knattspyrnu svaraði Viðar því að almennt héldi hann með lítilmagnanum, þ.e. þeim liðum sem ættu á brattann að sækja. „Svo fór ég í meistaranám til  Leicester og fór að halda með liðinu þar. Ég lít samt ekki á þetta eins og einhver trúarbrögð. Ef lið þróar með sér vond gildi eða slæm vinnubrögð þá held ég ekki með því lengur.“

Höfundur greinar: Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu.