Grunur um spillingu getur hindrað sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda | Háskóli Íslands Skip to main content

Grunur um spillingu getur hindrað sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda

þorskur

Víðtækur grunur um spillingu í nýtingu náttúruauðlinda getur aukið hættu á spillingu í auðlindastjórnunarkerfum, og þá um leið hindrað sjálfbæra nýtingu þeirra.  Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var í samstarfi Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla, en greint er frá niðurstöðunni í vísindatímaritinu Politics and Governance.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Jóhanna Gísladóttir, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla, en auk hennar koma þær Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, og Ingrid Stjernquist, rannsóknafræðimaður við Stokkhólmsháskóla, að greininni.

Rannsóknin sem fjallað er um í greininni er hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem nefnist „Aðlögun að nýjum efnahagsveruleika“ og miðar hún að því að þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn og þjálfa nýja kynslóð vísindamanna í sjálfbærnirannsóknum. Rannsóknin hlaut 500 milljóna króna styrk frá Marie Curie áætlun Evrópusambandsins og lýtur forystu Kristínar Völu Ragnarsdóttur, prófessors við Háskólann. Að rannsókninni koma tólf doktorsnemar auk fjölda vísindamanna.

„Aukin umræða um loftlagsmál hefur beint sjónum að mikilvægi þekkingar á því sem felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda,“ segir Jóhanna. „Til að koma böndum á ofnýtingu endurnýjanlegra náttúruauðlinda hafa því verið sett upp kerfi til að halda utan um leikreglur um nýtingu þeirra.“

Jóhanna segir að spilling sé einn af þeim þáttum sem getur komið í veg fyrir sjálfbæra nýtingu auðlinda, en spilling er talin eiga sér stað þegar einstaklingar eða fyrirtæki svindla á kerfinu með þeim afleiðingum að grafið sé undan bæði auðlindinni og því kerfi sem notað er við stjórnun hennar. 

„Aukin þekking okkar og skilningur á því hvaða ferlar draga úr eða ýta undir spillingarhættu á öllum stigum auðlindanýtingar eykur færni okkar til að gera úrbætur.“

„Aukin umræða um loftlagsmál hefur beint sjónum að mikilvægi þekkingar á því sem felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda,“ segir Jóhanna. „Til að koma böndum á ofnýtingu endurnýjanlegra náttúruauðlinda hafa því verið sett upp kerfi til að halda utan um leikreglur um nýtingu þeirra.“

Jóhanna Gísladóttir

Löggjöf ein og sér tryggir ekki sjálfbærni

Rannsókn vísindamannanna í greininni í Politics and Governance beindist að kortlagningu á spillingarhættum í nýtingu endurnýjanlegra náttúruauðlinda í Evrópu. Í þeim tilgangi var ákveðið að gera samanburðarrannsókn á fiskveiðistjórnunarkerfinu á Íslandi og skógarhöggsstjórnunarkerfinu í Rúmeníu. Kerfin voru valin til þess að kanna forsendur þess hvort löndum, þar sem spilling mælist lítil, takist betur til við að draga úr spillingarhættum í auðlindageirum en löndum þar sem spilling mælist mikil. 

„Þessir auðlindageirar hafa þar að auki haft mikla þýðingu fyrir efnahagslega og samfélagslega þróun landanna. Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á eigindlegum rannsóknaraðferðum og einstaklingsviðtölum við breiðan hóp hagsmunaaðila í hvoru landi fyrir sig,“ segir Jóhanna.

„Það eitt og sér, að hafa víðtæka og metnaðarfulla löggjöf tryggir ekki vel heppnað stjórnkerfi auðlinda. Svo virðist sem hér sé um að ræða einhvers konar vítahring orsaka og afleiðingar. Almennt höfðu stofnanirnar sem áttu að framfylgja eftirliti innan auðlindakerfanna í þessum löndum ekki getu til að gegna lögbundnu hlutverki sínu vegna skorts á fólki og fjármagni,“ segir Jóhanna. „Þegar eftirliti er ábótavant getur það leitt til þess að þeir sem starfa innan geirans hætta smám saman að gera ráð fyrir því að það hafi afleiðingar að fara á svig við reglur. Því fleiri sem þetta á við um, því meiri vinnu útheimtir eftirlit og eftirfylgni með lögum og reglum. Grunur um spillt samband milli stjórnmálanna og stórfyrirtækja í viðkomandi geira reyndist vera víðtækur meðal viðmælenda okkar.“

Jóhanna segir að niðurstöðurnar bendi til þess að þegar fólk hafi slíkan grun grafi það undan stefnumótun og aðgerðum til að draga úr spillingarhættu í auðlindageiranum, sem síðan geti hindrað sjálfbæra auðlindastjórnun.

„Það er mikilvægt að opna umræðuna um að spillingarhætta sé til staðar þegar kemur að stjórnun náttúruauðlinda. Nýting endurnýjanlegra náttúruauðlinda á sér yfirleitt langa sögu og almenningi er annt um að þeim sé stjórnað vel og að nýtingin sé sjálfbær. Ekkert kerfi sem heldur utan um auðlindastjórnun er gallalaust en úrbætur til að draga úr á spillingarhættu eru mikilvægar og til þess þarf bæði þekkingu og pólitískan vilja,“ segir Jóhanna.

Slóð á greinina í Politics and Governance